Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Vandkvæði á að velja sér stúlku

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vandkvæði á að velja sér stúlku

Einu sinni var ungur maður hér á landi sem vildi gifta sig. Hann leitaði því ráða til vinar síns hvurt honum sýndist þetta ráðlegt. Vinur hans mælti að það væri víst að þvílík ráðaleit þyrfti langan tíma. Hinn ungi maður mælti: „Þá vil ég fyrir víst giftast.“ Hinn spyr: „Hvurja viltu þá eiga.“ Hinn ungi mælti: „Ég vil eiga þá sem gift hefur verið áður.“ Vinur hans mælti: „Sú vill hafa sinn vilja og sjálfræði.“ „Þá vil ég,“ segir hinn, „eiga þá sem tvígift hefur verið.“ Vinurinn mælti: „Sú brúður ber sverð við síðu sér.“ „Þá vil ég eiga þá sem vel er máli farin.“ „Æ, minn vin, láttu hana kunna vel að þegja.“ „Þá vil ég eiga þá sem rík er.“ Vinurinn mælti: „Þú giftist þá peningunum, en ei persónunni.“ „Þá vil ég eiga þá sem falleg er,“ mælti hinn. Vinurinn mælti: „Það er illt að geyma það sem allir eftir sækja.“ „Þá vil ég eiga þá sem ófríð er.“ Þá mælti hinn: „Það er illt að binda sig við það sem öngvum þóknast og ekki er eftir geðinu.“ Vinurinn mælti: „Ég vil eiga þá sem mér færir mörg börn.“ Hinn mælti: „Mörg börn að eiga aflar mikillar áhyggju.“ „Ég vil þá sem engra barna auðið verður.“ Vinurinn mælti: „Ó, hvað slæmt tré er það sem engan ávöxt ber.“ „Þá vil ég,“ mælti sá ungi maður, „eiga einfalda stúlku.“ „Gjör það,“ mælti vinur hans, „því ske má hún hafi ei neitt illt lært og megi láta venja sig eftir vilja þínum, því í ektaskapnum og hans undirbúningi eiga menn forsjálir að vera því djöfullinn ásækir enga stétt svo margvíslega sem hana.“