Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Veðmálið og hangiketið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Veðmálið og hangiketið

Fyri mörgum árum síðan vóru margir suðurferðamenn norðlenzkir á ferð suður á Suðurnes til sjóróðra. Þeir fengu veður vot og hvöss. Á einu kvöldi vildu þeir ná að einum stórbæ til gistingar. Þar bjó ríkur bóndi sem ei er hér nafngreindur. Þegar þeir komu undir túngarðinn sagði einn þeirra gott og gaman væri nú í kvöld að eiga vænsta sauðarfallið hjá bónda í kvöld, soðið og heitt, þegar þeir væri að setztir, hvorju allir hinir samsinntu. Þá tók sá til máls sem fyrir þeim var: „Hvað viljið þið gefa mér til þess að stela vænsta krofinu frá bónda í kvöld og við getum borðað það brennandi heitt í rúmi okkar?“ Þeir kváðust skyldu gefa honum sína spesíuna hver ef hann kæmi því til leiðar, því þeir vissu fyri víst að hann gæti það ekki utan hann keypti það að bónda. Þeir bundu þetta fastmælum og komu svo heim á bæinn og báðu þar allir gistingar sem þeir fengu strax, og var þeim vísað öllum í skála fram í bæ. Þeir bjuggust þar um sem bezt þeir gátu og fóru af vosklæðunum, en sá sem bauðst til að útvega ketið hvarf í burtu strax úr skálanum og leitaði eldhúss og fann mörg krof á rá og náði því bezta sem hann hélt vera, svo enginn vissi á bænum. Síðan paufaðist hann inn í baðstofu þó ókunnugur væri og heimtaði bónda fram, bað hann nú að hjálpa upp á sig og ljá sér verkfæri að brytja krofið og svo að sjóða það fyri sig sem fljótast hann gæti því hann og samferðamenn sínir væru kaldir og hraktir úr illviðrinu um daginn. Fór bóndi til handa og fóta til konu sinnar og bað hana sjóða krofið fljótt fyri ferðamennina því þeir væru kaldir og hraktir, en ekkert grunaði bónda um kettökuna. Konan tók við ketinu og sauð, færði í trog og fór með til mannanna; vóru þeir þá allir komnir í rekkjur. Hún fékk manninum trogið sem þóttist eiga ketið. Hann bað konuna um disk og skammtaði hjónunum ríflega, en hinu deildi hann á milli félaga sinna. Þeir borðuðu með lyst og lögðu sig til svefns.

Um morguninn fóru þeir að taka sig til ferðar norðanmennirnir, og þegar þeir vóru albúnir brá ketgjafamaðurinn bónda á tal við sig og kvað að mál mundi fyri þá að borga fyri næturgreiðann og lagði þrjár spesíur í lófann á bónda. Bóndi varð forviða og segist ekki vilja neitt þiggja því hann hefði gefið sér í gærkvöldi og mundi hann rausnarmaður vera. Aðkomumaður snerti ekki aftur peningana og kvað það ekki of mikið ef hann vissi hvað sér hefði orðið á. Bóndi hélt sér það lítinn skaða mundi vera. Suðurferðamaður bað bónda að koma með sér í eldhús og bað hann telja föllin. Bónda þykir þetta undarlegt og kom í hug ketsoðningin um kvöldið, taldi föllin og þá vantar vænsta sauðarfallið. Aðkomumaður segir þá bónda upp alla sögu um veðmálið og kettökuna og bað hann fyrigefningar á tiltæki sínu. Bóndi hló að öllu saman og þótti hinum vel farast úr því svona var komið. Aðkomumaður gekk til félaga sinna og bóndi með honum. Sagði hann þeim alla sögu því hann hafði þagað um það við þá fyrri en hann sæi fyri endann á þessu tiltæki sínu. En lagsbræður hans héldu og vissu ekki annað en að hann hefði keypt ketið að bónda um kvöldið og brá þeim heldur í brún. Heimtaði hann að þeim öllum veðféð. Bóndi sannaði sögu hans og máttu þeir allir út með sína spesíuna hver. Aðrir segja að veðféð hafi verið króna, en hvört sem var varð kettökumaður skaðlaus þó hann borgaði bónda vel næturgreiðann. Bóndi var vel glaður og hafði gaman að öllu saman, veitti þeim brennivín og annan beina sem þeir vildu þiggja. Skildu þeir bóndi og kettökumaður beztu vinir. Bauð bóndi honum að gista hjá sér ef hann færi suður oftar og er mælt að þeir hafi beztu vinir verið til dauðadags.