Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Vermaðurinn og grautarkrukkan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni fóru tveir menn úr sveit til sjóróðra. Hafði annar þeirra lengi róið í Garði suður, en annar þeirra hafði lengi verið smali og var þá kominn yfir þrítugt. Maðurinn var fremur matgefinn, þó sjálfum sér til rauna. Þeir voru nábýlismenn og gagnkunnigir; því beiddi hann þennan félaga sinn að stíga á tá sér nær hann hefði hæfiliga neytt matar þar er þeir væri gestkomandi. Félagi hans lofaði því.

Nú komu þeir að einum bæ og gistu þar um nóttina. Þar var grautur á borði um kvöldið, en er þeir voru nýfarnir að borða gekk hundur bónda undir borðum og steig á fót ferðamanninum. Hann ætlaði þetta mundi félagi sinn og hætti að borða hvernig sem búandi og félagi hans héldu því að hönum. Nú er af borðum borið og leifarnar látnar í uppmjóan leirbrúsa og farið með í búrið inn af baðstofunni; það var læsingarlaust. Nú fóru menn að hátta. En um nóttina fór hann að svengja, fór því sem hljóðligast á fætur og inn í búr og hitti krukkuna – því hann sá hana um kvöldið og hvar hún var látin. Hann fór með höndina ofan í krukkuna og ætlaði að borða með hendinni, en hann komst ekki aftur úr henni fyri þrengslum, varð því í mestu vandræðum og reikaði fram úr búrinu. Kom hann þá auga á hvar tunglið skein inn um glugga og sá þar hvítan stein í veggnum, enda demdir hann hendinni þar í og ætlar að mola af sér krúsina. En hún brotnaði ekki, heldur kom þar upp hljóð mikið því það var andlitið á húsbóndanum er hinn í sló; var það blátt og blóðugt og í sundur sprungið. Varð þá að mölva krúsina af hendi honum. Af þessu varð hann fyrir mikilli sneypu. Héldu þeir svo ferð sinni áfram og er ekki fleira um það getið.