Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Nýjársnótt

Úr Wikiheimild

Nýjársnótt urðu margir hlutir undarlegir og mikið um dýrðir þar sem álfar fluttu þá búferlum, sóttu tíðir og heimboð hverjir til annara; þá var hvað bezt að sitja úti á krossgötum; þá töluðu kýr að sumra sögn, þó aðrir segi það væri á þrettándanótt; þá var trú að „kirkjugarður risi“ og að allt vatn yrði þá snöggvast að víni. Það verður að hafa það hugfast að „hátíð er til heilla bezt“, og því hafa sumir ætlað að óskastundin væri þessa merkisnótt. Menn hafa á marga vegu viljað leita sér láns og heilla og þess vegna grafizt mikið eftir því nær óskastundin væri svo að þeir gætu óskað sér hvers sem þeir vildu.

Sagt er að Sæmundur fróði hafi orðið einna drjúgastur í því og sagt sem fyrr er getið að óskastund væri einu sinni á hverjum degi. Þó fer nokkrum missögnum um þetta því sumir segja að óskastundin sé ekki oftar en einu sinni á hverjum laugardegi, sumir að hún sé aðeins einn laugardag á árinu og enn nokkrir að hún sé á nýjársnótt.

Svo er sagt að piltur einn ætlaði að reyna að hitta óskastundina. Hann tók sig til einn laugardag, en aðrir segja á gamlárskvöld, settist upp á bæjarburstina, hélt húfunni sinni opinni milli handa sér og bað í sífellu og hástöfum með þessum orðum: „Full, full húfan mín með rauðagull.“ Þarna sat pilturinn alla nýjársnóttina (eða laugardaginn) og var að óska þangað til um morguninn að einn af heimamönnum gekk út og heyrði, hvers drengurinn óskaði, og sagði um leið og hann gekk út: „Ég vildi hún væri orðin full af skít.“ Þetta varð að áhrínsorðum því maðurinn hitti óskastundina, en drengurinn þagði á meðan hinn óskaði.

Þá er sögnin um búrdrífuna allmerkileg, en svo hét hrím það sem forðum féll á nýjársnótt á búrgólfið hjá húsfreyjum, því þær létu þá standa opna búrgluggana. Hrím þetta var líkast lausamjöll, hvítt á lit, smágert og bragðsætt, en sást hvorki né náðist nema í myrkri og var allt horfið þegar dagur rann á nýjársmorgun. Húsfreyjur þær sem vildu safna búrdrífunni fóru svo að því að þær settu pott úr brynjumálmi á mitt búrgólfið, létu yfir hann síugrind með krossspelum yfir, og gat þá búrdrífan ekki komizt út aftur um opið sem var krossmyndað. Sumir segja að húsmæðurnar væru sjálfar í búrinu alla nýjársnótt meðan búrdrífan féll, en þegar potturinn væri orðinn fullur hafi þær látið yfir hann krosstréð svo drífan gæti ekki komizt upp úr honum og er sú sögusögn öll líklegri. En búrdrífunni átti að fylgja einstök búsæla og búdrýgindi.