Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Vistarbiti og velferðarbiti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Vistarbiti og velferðarbiti

Loksins er þá eftir að minnast vistarbitans og velferðarbitans. Svo stendur á með hinn fyrra að hann er gefinn hjúi því sem ræðst til húsbænda af öðrum bæ, en ekki þeim hjúum sem árinu áður hafa verið í sömu vistinni þó þau séu ráðin heima. Sumir húsbændur hafa haft það bragðalag að gefa því hjúi sem þeir hafa viljað ná í vist til sín ósníkilega að borða þegar það hefur komið gestkomandi á bæ þeirra, helzt ef þeir hafa haft grun á að hjúið mundi gangast fyrir slíku. Síðan hafa þeir borið upp við það vistarráðin, og ráðist þá hjúið til þeirra gefa þeir því drjúgan bita með sér þegar það fer aftur heimleiðis. Dæmi eru til þess að þeir húsbændur sem ekki skera allt upp á nöglurnar á sér, hafa þá lagðað hjúið með heilu sauðarfalli. Það heitir „vistarbiti“ sem hjúinu er gefið með sér.[1]

Á velferðarbitanum stendur öðruvísi en á öllum hinum glaðningunum sem áður eru taldir; því hann gefa vermenn þeir sem fara til vers af útgerð sinni og ekki húsbændurnir. En útgerð heitir það sem vermönnum er fengið með sér að heiman í matvælum til vertíðarinnar, t. d. sauðarkrof eitt eða meir af hangiketi, fjórir eða fimm fjórðungar smérs og kökur og brauð að því skapi. Vermenn láta jafnan sjóða nokkuð af ketinu í nestið handa sér áður en þeir fara að heiman og eftir því meira eða minna sem þeir eiga lengri eða skemmri leið fyrir höndum. Þegar búið er að sjóða fyrir þá gefa þeir áður en þeir fara af stað hverju mannsbarni á heimilinu bita af nesti sínu, ket og köku og við henni. Þetta er kallaður „velferðarbiti“ og mun hafa verið og vera enn gefinn þar sem hann annars tíðkast í því skyni að þeir sem heima væru eftir óskuðu vermanninum velförnunar og árnuðu honum alls góðs meðan hann væri burtu í verinu, svo að í þessari venju liggi lík hugsun og því sem Glúmur sagði við Þjóstólf: „Án er illt gengi, nema heiman hafi.“[2]

  1. Jón Borgfirðingur bætir við: „í Norðurlandi er það siður auk vistarbitans að gefa hjúum tilvonandi heila spesíu, sumir láta hana gilda fyrir hvorutveggja.“
  2. Sjá Njálu, 17. kafla.