Fara í innihald

Brennu-Njáls saga/17

Úr Wikiheimild
Brennu-Njáls saga
17. kafli


Glúmur kvaddi menn til ferðar með sér og bjóst Þjóstólfur með Glúmi. Þeir fóru upp Reykjardal hinn syðra og upp hjá Baugagili og upp til Þverfells og skipta þar liðinu og fóru sumir í Skorradalsleit en suma sendi hann suður til Súlna og fundu þeir allir fjölda fjár. Svo kom að þeir voru tveir sér, Glúmur og Þjóstólfur. Þeir gengu suður frá Þverfelli og fundu þar sauði skjarra og eltu sunnan að fjallinu. Komust sauðirnir upp á fjallið fyrir þeim. Ámælti þá hvor þeirra öðrum og mælti Þjóstólfur við Glúm að hann mundi til engis hafa afla annars en brölta á maga Hallgerði.

Glúmur mælti: „Án er illt gengi nema heiman hafi. Eg skal taka hæðiyrði af þér þar sem þú ert þræll fastur á fótum.“

Þjóstólfur mælti: „Það skalt þú eiga til að segja að eg er eigi þræll því að eg skal hvergi undan þér láta.“

Þá reiddist Glúmur og hjó til Þjóstólfs með saxi en hann brá við öxinni og kom í fetann og beit í ofan um tvo fingur. Þjóstólfur hjó þegar með öxinni í móti og kom á öxlina og tók í sundur axlarbeinið og viðbeinað og blæddi inn úr sárinu. Glúmur greip til Þjóstólfs annarri hendi svo fast að hann féll við. Glúmur mátti ekki halda því að dauðinn fór á hann. Þjóstólfur huldi hræ hans með grjóti og tók af honum gullhring.

Hann gekk þar til er hann kom til Varmalækjar. Hallgerður var úti og sá að blóðug var öxin. Hann kastaði til hennar gullhringinum.

Hún mælti: „Hvað segir þú tíðinda eða hví er öx þin blóðug?“

Hann svaraði: „Eigi veit eg hversu þér mun þykja. Eg segi þér víg Glúms.“

„Þú munt því valda,“ segir hún.

„Svo er,“ segir hann.

Hún hló að og mælti: „Eigi ert þú engi í leikinum.“

Hann mælti: „Hvert ráð sérðu fyrir mér nú?“

„Far þú til Hrúts föðurbróður míns,“ segir hún, „og sjái hann fyrir þér.“

„Eigi veit eg,“ sagði Þjóstólfur, „hvort þetta er heilræði en þó skal eg þínum ráðum fram fara um þetta mál.“

Tók hann þá hest sinn og reið á braut og lýkur eigi ferð sinni fyrr en hann kom á Hrútsstaði um nótt. Hann bindur hest sinn á bak húsum, gengur síðan að dyrum og lýstur á högg mikið. Eftir það gengur hann norður um húsin. Hrútur hafði vakað og kippti upphávum skóm á fætur sér, fór í treyju og tók sverð í hönd sér. Hann vafði möttli um vinstri hönd sér og upp um handlegginn. Menn vöknuðu við er hann gekk út. Hann gekk norður um vegginn og sá þar mann mikinn og kenndi að þar var Þjóstólfur. Hrútur spurði tíðinda.

„Eg segi þér víg Glúms,“ segir Þjóstólfur.

„Hver veldur því?“ segir Hrútur.

„Eg vó hann,“ segir Þjóstólfur.

„Hví reiðst þú hingað?“ segir Hrútur.

„Hallgerður sendi mig til þín,“ segir Þjóstólfur.

„Eigi veldur hún þessu þá,“ segir Hrútur og brá sverðinu.

Þetta sá Þjóstólfur og vill eigi verða seinni og höggur þegar til Hrúts. Hrútur brást skjótt undan högginu og laust vinstri hendi utan á hlýr öxinni svo snart að öxin hraut úr hendi Þjóstólfi. Hrútur hjó með hægri hendi á fót Þjóstólfs fyrir ofan knéið og hljóp að honum við og hratt honum. Féll Þjóstólfur á bak aftur en fóturinn loddi. Þá hjó Hrútur annað högg hann til bana og kom það í höfuðið. Þá komu út húskarlar Hrúts og sáu verksummerki. Hrútur lét færa Þjóstólf í braut og hylja hræ hans. Síðan fór Hrútur að finna Höskuld og sagði honum víg Glúms og svo Þjóstólfs. Honum þótti skaði mikill að um Glúm en þakkaði honum vígið Þjóstólfs.

Nú er þar til máls að taka að Þórarinn Ragabróðir spyr lát Glúms bróður síns. Ríður hann við tólfta mann vestur til Dala og kom á Höskuldsstaði. Höskuldur tók báðum höndum við honum og er hann þar um nóttina. Höskuldur sendir þegar eftir Hrúti að hann kæmi þangað. Hann fór þegar. Og um daginn eftir töluðu þeir margt um látið Glúms.

Þórarinn mælti: „Vilt þú nokkuru bæta mér bróðurinn því að eg hefi mikils misst?“

Höskuldur svaraði: „Eigi drap eg bróður þinn og eigi réð dóttir mín honum bana en þegar Hrútur vissi þá drap hann Þjóstólf.“

Þá þagnaði Þórarinn og þótti vandast málið.

Hrútur mælti: „Gerum við góða ferð hans. Hann hefir víst mikils misst og mun það vel fyrir mælast og gefum honum gjafar og sé hann vinur okkar alla ævi síðan.“

Og fór þetta fram að þeir gáfu honum gjafar bræður og reið hann suður aftur.

Þau Hallgerður skiptu um bústaði um vorið og fór hún suður á Laugarnes en hann til Varmalækjar. Og er Þórarinn úr sögunni.