Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Álavatn
Álavatn
Vatn eitt liggur í landnorður frá Krossholti, en í landsuður frá Jörfa, og heitir Álavatn. Það hefir verið vatnsmeira til forna en nú, og í kringum það vottar víða fyrir löngum veiðigörðum. Hefir til forna verið allmikil veiði í því frá báðum þeim bæjum er nýskeð voru nefndir, því vatnið er í landeign þeirra. En í manna minnum hefir ekki veiði í því verið stunduð þangað til Helgi Sigurðsson tók hana upp þegar hann bjó á Jörfa. Hafði hann þá kænu við veiðina og gat því glöggt kannað dýpt vatnsins. Vatnið er með leir- og morbotni nema að vestanverðu, þar er víðast malarbotn. Þar sem vatnið er dýpst er það á sumrum oftast ekki dýpra en þrjár álnir, en víða er það miklu grynnra. í því er einungis vatnasilungur fremur smár. En af því ekki hefir verið veitt í því fyrri í marga mannsaldra eins og vikið var á hefir myndazt og gengið mann frá manni saga um það er svo hljóðar:
Í fyrndinni einhvern tíma risu deilur út af veiðinni í Álavatni milli Jörfa- og Krossholtsbænda. Varð Krossholtsbóndinn þá allt yfirsterkari enda átti hann miklu stærri part af vatninu heldur en hinn. Jörfabóndi átti móður sem þókti hafa verið fjölkunnug og forn í skapi og nú var komin í kör. Þegar deilurnar millum bændanna uxu svo að horfa þókti til vandræða lét kerling á sér heyra að réttast væri að hún færi að taka til sinna ráða og skakka leikinn. Lét hún því flytja sig suður að vatninu og lét alla burtu fara. Dvaldi hún þar stundarkorn, lét síðan flytja sig heim aftur. Sagði hún þá að þaðan í frá myndi engum manni verða að liði veiði í vatninu og hefir það síðan ásannazt. Fór þetta og sem von var til sökum þess að kerling hafði með fjölkynngi sínu fært fjarska stóra hellu yfir auga það í vatninu sem silungurinn hafði haft göngur sínar um svo hann komst ekki úr því upp um tvíbytnuaugað. En vatnið er afar djúpt (segir sagan) og tvíbytna. Fellur að og út í því á sömu tímum og í sjónum; og sumum hefir svo sagzt frá að þeir hafi séð stórar ókindur líkar hvölum, sinn í hvert sinn, vera að móka í vatninu. Er því mesta fásinna talin að fara á bát um vatnið.