Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Ármannshellir eða Aronshellir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ármannshellir eða Aronshellir

Ármannshellir (alii Aronshellir) er hellir sá í Arnarbælisdal fyrir ofan Tungumúla á Barðaströnd og er sú sögn til hans: Þá Gestur spaki Oddleifsson bjó í Haga á Barðaströnd var uppi útilegumaður sá er Ármann hét og lagðist hann á fénað Gests. Gestur vildi fyrir hvern mun ná honum, en veitti það erfitt mjög því Ármann lá í helli þessum. Steinn er þar í ánni og er sagt að fræknustu menn fengi stokkið af honum upp í hellinn. En nú á dögum er hrunið nokkuð af honum og hefur við það lengzt hlaupið að mun.

Upp úr dalnum eru drög sem Arnarbælisdrög heita. Heitir þar nú Geitahlíð og Hrútahlíð fyrir framan og er þar leiði eður kuml nokkuð við götuna; þar hafa verið lagðir steinar svo sléttir er fá mátti og líkast því sem kantaðir væru, hér um sex eða sjö, og hyggja menn þó að af þeim hafi tekið verið í vörður þar á heiðinni er Fossheiði heitir. Leiðið er hér um þrjár og hálf alin. – Þar er sagt að Gestur næði Ármanni að lyktum og hafði oft freistað þess áður hann fengi komizt í hellinn, því vígi var hann svo öruggt að ei var kostur að handsama hann þar. Gestur sat fyrir honum þar nú heita Ármannslautir, lét drepa hann þar og dysja við veginn og heitir þar síðan Ármannsleiði og Ármannslautir.

En löngu síðan er Aron Hjörleifsson lá í helli þessum á kosti konu þeirrar er bjó í Tungumúla og Steinunn hét hafa sumir breytt nafninu og kallað Aronshellir og leitt þar af að leiðið hafi verið kennt við Aron; en Aron sá dó í Noregi sem segir í sögu hans og Sturlunga.