Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Öfuguggi

Úr Wikiheimild

Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:

„Mál er að gana,
[geislar flana.[1]
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,[2]
[utan sú eina seta,[3]
sem ekki vildi eta.“[4]

Eða svo:[5]

„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.

Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.

  1. Frá [ hafa aðrir þannig: „maðurinn hárvana“.
  2. Frá [ hafa aðrir þannig: „allt liggur andvana / fólkið á Kaldrana“.
  3. Seta á að þýða sama sem „niðursetningur“.
  4. Sumir sleppa 5. og 6. vísuorði, en tvítaka í þeirra stað 4. vísuorð.
  5. Seinni vísan er hér eins og hún er höfð í Dalasýslu.