Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Þjófarót

Úr Wikiheimild

Þjófarót er gras eitt með hvítleitu blómi. Er það mælt að hún sé vaxin upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin upp af náfroðunni upp úr honum. En aðrir segja að hún sé sprottin upp af þjófadysinni. Rót grass þessa er mjög angótt. Þegar þjófarót er tekin verður að grafa út fyrir alla angana á henni án þess að skerða nokkurn þeirra nokkurstaðar nema miðangann eða meginrótina sem gengur beint í jörð niður, hana verður að slíta. En sú náttúra fylgir þeim anganum að sérhvert kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hann slitnar liggur þegar dautt. Þeir sem grafa þjófarót binda því flóka um eyru sér. En til þess að þeir sé því ugglausari að þeir heyri alls ekkert hafa þeir þó þá varúð við að þeir binda um rótina og hinum endanum við hund sem þeir hafa með sér. Þegar þeir eru búnir að undirbúa allt hlaupa þeir frá greftinum og þegar þeir þykjast komnir nógu langt burtu kalla þeir á hundinn. Slitnar þá anginn við það að hundurinn gegnir og ætlar að hlaupa til mannsins, en hundurinn drepst þegar í stað er hann heyrir slithvell rótarinnar. Síðan er rótin tekin og geymd vandlega. Gras þetta hefur þá náttúru að það dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðarmús dregur fé úr sjó. En þó verður fyrst að stela undir hana peningi bláfátækrar ekkju á milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. En ekki dregur rótin aðra peninga en þá sem samkyns eru þeim er undir hana var stolið í fyrstu; sé það t. d. áttskildingur dregur hún eintóma áttskildinga o. s. frv. Ekkert vandhæfi hef ég heyrt að sé á því að geyma eða verða af með rót þessa; því fleygja má henni hvar og hvenær sem vill að ósekju.