Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Þjófurinn og tunglið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þjófurinn og tunglið

Um tunglið sér í lagi er þessi saga: Einu sinni var sauðaþjófur sem settist niður á afviknum stað með feitu sauðarlæri (aðrir segja bringukoll) í hendinni sem hann hafði stolið og ætlaði að snæða það þar í makindum. En tunglið skein skært og bjart því engin skýská var á lofti. Þjófurinn ávarpaði þá tunglið þessum ósvífnisorðum og rétti um leið upp á móti því hnífinn með ketbita á oddinum:

„Viltu, tungl,
þér á munn
þenna bita feitan?“

Þá svaraði honum aftur rödd af himni:

„Viltu, hvinn,
þér á kinn
þenna lykil heitan

Í sama bili féll glóandi lykill úr hálofti beint niður á kinn þjófsins og brenndi þar á hann brennimark og bar hann örið eftir æ síðan. Sagan er alkunn bæði á Suðurlandi og Norðurlandi og sagt að af þessu hafi sá siður verið tekinn upp sem algengur var á fyrri öldum að brennimerkja þjófa, en þó var það gjört á ennið, en ekki kinnina.