Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Aðrir steinar

Úr Wikiheimild

Surtarbrandur er sagt að eigi við kveisu og verkjum ef hann er hitaður og lagður á verkinn. Ef hann er mulinn smátt ver hann föt fyrir möl og öðrum skorkvikindum; hann ver og undirflogi á fénaði ef hann er látinn í fjósveggi eða kvíaveggi á stöðli.

Hrafntinnu kalla útlendar þjóðir „svart agat“; um hana er það að sagt að hún kveiki illdeilur þar sem hún er í hús borin.

Það er sagt af blóðstemmusteininum að hann stilli vel blóðrás eins og nafn hans bendir á.

Alabastur er af marmarakyni. Hann gefur sigur og vinsældir þeim sem hann bera.

Tak segulstein, myl smátt saman við hrátt deig og messuvín og baka á eldi og gef þeim að éta sem þú grunar um þjófnað. Ef í honum stendur er hann þjófur, en ekki annars.