Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Agat

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Agat

Sá steinn segir Eggert Ólafsson sé skyldur surtarbrandi, en miklu smágjörvari að efni. Mikla trú hafa Íslendingar haft á kynjamagn hans, en einkum þeir sem byggja Hornstrandir, enda eru þær taldar óðalsland og aðalheimkynni drauga og galdra og þar segir Mohr hann finnist stundum enda komi hann þar í góðar þarfir. Bæði Eggert og Mohr geta þess að hjátrúarfullir menn segi að hann hafi 24 náttúrur; af þeim telur Eggert þessar: 1. Að þeim sem beri hann á sér skuli ekki granda galdur, 2. ekki heldur eitur; 3. þar sem kveikt er á honum í húsum fælir hann burtu afturgöngur og drauga, 4. ef hús eru reykt með honum varnar hann næmum sóttum; 5. orma á hann að fæla, og Mohr bætir hinni 6. við að sá sem hafi á sér agat sökkvi ekki þó hann detti í vatn og lætur það nærri því sem honum er enn talið til gildis að hann verndi þá sem beri hann á sér við sjávarháska og þegar reykt er með honum verji hann kýr fyrir gjörningum. Þannig er sagt að ekki séu allar dísir dauðar enn fyrir Strandamönnum og Ísfirðingum með trúna á honum.

Eggert hefur og tekið það fram að Íslendingar álíti að svarta agatið sé svartur rafur og Mohr að það dugi karlmönnum, en hið hvíta (það er gulur rafur eða hvítur) dugi kvenfólki. Purkeyjar-Ólafur getur þess um stein þenna að hann sé ekki aðeins vörn við eitri allskonar, hungri og þorsta, heldur verði sá sem hefur hann á sér glaðvær og góðlyndur, hugljúfi hvers manns og njóti höfðingjahylli; hann segir að steinninn ráði honum heilræði og auki afl hans. – Líklega er það sami steinninn sem stöku menn hér og hvar hafa ímyndað sér að öll sín heppni til sjávar væri undir komin.

Jón bóndi Daníelsson í Vogum sem áður er getið var í miklu áliti bæði hjá Vogamönnum sjálfum og öðrum sem þar réru á vegum hans fyrir kunnáttu sína og þekkingu á mörgu og leituðu þeir því tíðum ráða til hans í vandræðum sínum og eins ef þeir öfluðu illa. Lagði hann þeim oftast þau ráð sem dugðu. Oft gaf hann þeim steina og annað þess konar, en hann bað þá geyma vandlega og segja engum frá að þeir hefðu né heldur hvaðan þeir væru og mundu þeir verða varir meðan þeir geymdu steinana vel. Einn formaður í Vogum var sá sem jafnan var óheppinn með afla; hann leitaði einu sinni í vandræðum sínum til Jóns og bað hann kenna sér ráð við þeirri óheppni. Jón sagði honum að ekki mundi gott við því að gjöra, en ráð gæti hann þó kennt honum. Skyldi maðurinn fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa (hún er niður undan Grímshól sem áður hefur verið nefndur) og koma með það fullt af malarsteinum og færa sér; mundi þá varla fara svo að þar væri ekki í einhver happasteinn. Síðan fór maðurinn sem honum var sagt og færði Jóni fullt austurtrogið. Jón fór að leita í því og fann seint þann stein sem honum líkaði. Brá hann ýmist á þá tungunni eða þefaði af þeim og stundum hvort tveggja. Loksins fann hann einn er honum líkaði; þann stein fékk hann manninum og sagði að hann skyldi hafa hann jafnan með sér er hann réri til fiskjar og mundi hann þá varla fara fýluferð, en muna sig um það að láta ekki á þessu bera við nokkurn mann. Eftir þetta brá svo við í hvert sinn sem maðurinn réri að hann hlóð og dró með háseta sínum stanzlausan fisk því þeir voru ekki nema tveir á. Þegar þetta hafði gengið svo um stund getur formaðurinn ekki að sér gjört og segir háseta sínum frá hvað Jón Daníelsson hafi gefið sér og sýnir honum steininn; þar með segir hann frá því að Jón hafi beðið sig að láta þetta ekki vitnast og biður hann fyrir alla lifandi muni að láta það ekki fara lengra, en satt hafi karlinn sagt og fleira viti hann en almenningur. En eftir þetta brá svo við að formaður þessi fékk aldrei bein úr sjó það sem eftir var vertíðarinnar né upp þaðan og kenndi hann það mælgi sinni sem Jón hefði varað sig við.