Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Bóndinn á Ánastöðum og bjarndýrið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bóndinn á Ánastöðum og bjarndýrið

Á Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá vóru einu sinni hjón; þau höfðu ekki annað fólk en eina vinnukonu. Einn vetur ól konan barn og gekk allt bærilega. Þegar tími var til sótti bóndi prest til að skíra barnið og fylgdi honum svo aftur heim að Hjaltastað sem er vel meðalbæjarleið, og fór hann svo áleiðis heim til sín aftur.

Um þetta leyti voru ísalög mikil hér við Austfirði og bjarndýragangur. Nú er að segja frá bónda að þegar hann kemur hjá öxl sem er skammt fyrir utan Ánastaði, sér hann að bjarndýr situr á öxlinni og heldur á einhverju í kjaftinum, þvílíkast sem konubrjósti, og grunar hann að eitthvað muni bessi hafa illa við skilið heima. Hann hleypur því hið hraðasta heim til bæjarins og sækir lensu sem hann átti, því þá voru ekki enn alveg aftekin vopn á landi hér, og fer út eftir aftur. Hafði þá dýrið á meðan farið út hjá annarri öxl litlu utar en hin. Bóndi kallar þá til dýrsins og skipar því að bíða sín; er þá sagt að það hafi lagzt niður, og lagði bóndi það svo liggjandi og aðgjörðalaust. Að því búnu fer hann heim til bæjarins og gengur í skála sem konan hafði legið í. Var þá rúmið autt, en á gólfinu var beinahrúgan af henni og barninu; en vinnukonan og yfirsetukonan höfðu forðað sér af bænum. Eftir það vóru Ánastaðir í eyði um hríð.

Heimari öxlin er nefnd Ilöxl, en sú ytri Dýrsöxl og halda þær því nafni enn í dag.

Ath. Kona sú er sagði mér söguna og borin og barnfædd er á Ánastöðum mundi eftir að bjarndýr hafði komið þar á páskadag þegar foreldrar hennar voru við kirkju og sáu för dýrsins er þau komu frá kirkjunni. Hafði það gengið um hlaðið og öngvu grandað, en bærinn var lokaður og börnin inni og vissu ekkert af voða þeim er yfir þeim sýndist vofa. Þetta var veturinn 1823 eða '24.