Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Börnin á Lambanesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Börnin á Lambanesi

Árið 1848 vildi það til á Lambanesi í Fljótum að börn Steins Guðmundssonar, bóndans þar, Guðmundur sjö ára og Guðrún á fjórða ári, voru að leita að steinum þar við ána. Var Guðmundur búinn að safna smásteinum hátt í vettlinga sína. Finnur hann þá stein einn fremur móleitan með dökkum dröfnum, álíka stóran og hrossagauksegg og eins og egg í lögun, með laut í digrari endann, og lætur hann þenna stein í vettling sinn. Þá fer Guðrún að kalla á Guðmund. „Ég er hérna,“ segir Guðmundur. En Guðrún sér hann ekki, kallar á ný og fer að gráta. Hleypur þá Guðrún að ánni, því [hún] hélt hann væri kominn í ána, en Gvendur fleygir vettlingnum og hleypur í ósköpum að ná henni. Sér hún hann þá strax. Nú ætla þau að taka vettlingana, en finna aldrei vettlinginn þann sem steinninn var í né heldur steininn.[1]

  1. Ég hefi nú í desember 1861 spurt Guðrúnu að þessu og segist hún glöggt muna að vettlingarnir voru hvítir með ljósbláu uppbroti fremur stórir, að hún sá ekki Guðmund, fór að gráta, ætlaði í ána að leita þar að honum, að þau fundu ekki nema annan vettlinginn. Steininn sá hún ekki. – Um þetta spurði ég Guðmund í janúar 1862 og sagði hann eins frá, og vildi hann fortaka að hann hefði fleygt vettlingunum í ána, þar hinn vettlingurinn var á eyrinni langt frá ánni. Vettlingarnir sagði hann hefðu verið hvítir með bláu uppbroti. Steinninn sagði hann hefði að öllu verið sem líkastur hrossagaukseggi. – J. N.