Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Barn drepur bjarndýr

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Barn drepur bjarndýr

Á öðrum bæ var það eitt sinn að börn vóru á baðstofulofti að leika sér, en fólk var úti. Og er börnin varði minnst kom bjarndýr inn á baðstofugólfið og brátt seildist það með hausinn upp um lúkugatið á loftinu og vildi ná í börnin, en gat ekki og fer það að slafra tungunni eftir þeim. Börnin urðu hamslaus af hræðslu og grétu hástöfum við hvað dýrið espaðist enn meir og teygði því lengra tunguna. Elzti drengurinn grét ekki og tekur hann stóran hníf bitureggjaðan sem faðir hans átti, niður undan langbandi í baðstofunni og sker með honum um þvert tunguna úr dýrinu. Mæddi dýrið blóðrás svo mikil af sárinu að það datt niður á baðstofugólfið og dó þar.