Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Beinamelur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Beinamelur

Á Syðra-Rauðamel í Kolbeinsstaðahrepp bjuggu á fyrri tímum hjón nokkur. En svo hagar til að fyrir neðan téðan bæ og niður með Haffjarðará er melur einn sem nefnist Beinamelur. Tjörn er og skammt frá melnum og nefnist hún Beinatjörn. Segja menn að melurinn og tjörnin dragi nafn af því að á þurrkasumri einu hafi tjörnin þornað upp og hafi þá fundizt í henni barnsbein. Vóru þau þá tekin eftir þáverandi venju og bundin saman og fest yfir kirkjudyrum á Kolbeinsstöðum til að komast fyrir barnsmorðið. Varð þá ber að því áður umgetin kona á Syðra-Rauðamel sem fyrir nítján árum hafði verið grunuð um að hafa borið út barn sitt. Er þá mælt að hún hafi svo að orði kveðið að lengur hafi guð sparað sig þó að menn hefði sparað sig eitt árið enn, eður hið tuttugasta. Henni var drekkt í svonefndu Konufljóti í Kaldá í Kolbeinsstaðahrepp og sést enn dys hennar á Garðaás eða Garðamelum.