Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Betri er belgur en barn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Betri er belgur en barn“

Svo er sagt að manni nokkrum, hvort sem hann var ekkjumaður eða ókvæntur, hafi á Jónsmessunótt orðið gengið niður að sjó og þar hafi hann séð marga menn allsnakta liggja í sandinum og sinn selsbelginn hjá hverjum þeirra. Þetta þókti manninum undarlegt og til að komast eftir hvernig á þessu stæði hljóp hann inn í hópinn og náði einum selsbelgnum. En við það stukku mennirnir á fætur sem þar lágu, og þutu hver í sinn selsbelg og svo í sjóinn með sama, allir nema einn sem hvergi fann belginn sinn. Þetta var kona og undi hún því allilla að ná ekki belgnum sínum þótt hún bæði manninn á marga vegu að fá sér hann. Aftur á móti bauð hann henni heim með sér og það þáði hún. Gaf hann henni svo föt og hélt henni hjá sér, enda fór hún smá saman að una sér og svo dró saman með þeim að lyktum að þau áttust. Féll vel á með þeim og áttu þau börn og buru. Konan tók þá við öllum búsforráðum og lyklum að öllum hirzlum og gekk um allt með snilld. Einn var þó sá lykill sem hún fékk ekki vald á hjá manni sínum því hann bar hann jafnan á sér. Sá lykill gekk að kistuskrifli úti í smiðju. Oft spurði konan bónda sinn hvað í kistunni væri. Hann sagði það væri rusl eitt og smíðatólin sín.

Nú leið og beið nokkur ár þangað til bóndi fór eitthvað að heiman. Fór þá kona hans enn sem oftar að svipast að lyklinum að kistunni, en fann hann hvergi. Gekk hún svo út í smiðju og hitti þar elzta son þeirra hjóna og spyr hann hvort hann hafi nokkurn tíma séð í kistugarminn þarna. Drengurinn sagðist ekki hafa séð það. „Veiztu þá ekki heldur hvar lykillinn er að henni?“ segir hún. „Nei,“ segir drengurinn, „því hann faðir minn skilur hann aldrei við sig þegar hann er heima, en þegar hann fer burt af bænum felur hann hann einhverstaðar í veggjarholu.“ „Æ, farðu nú og leitaðu fyrir mig að lyklinum,“ segir konan, og gerði drengurinn það og fann svo lykilinn loksins og fær svo móður sinni hann. Hún er þá ekki lengi að ljúka upp kistunni og sá þar ekkert í annað en selsbelginn sinn góða og segir: „Betri er belgur en barn, belgurinn þagði, en barnið sagði.“ Síðan grípur hún belginn og heldur með hann til sjávar. Þar nemur hún staðar, hugsar sig ofurlítið um og segir síðan:

„Mér er um og ó,
ég á sjö börn í sjó
og sjö börn á landi.“

Sér þá drengurinn sem hafði fylgt móður sinni til sjávar að hún muni ætla í belginn, og biður hana í öllum bænum að gjöra það ekki. En það tjáði ekki, því hún fór í belginn og steyptist síðan í sjóinn.