Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Bjarndýr drepið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bjarndýr drepið

Á bæ einum við sjó í Norðurlandi þá er hafísar lágu þar við land varð atburður sá að konan var ein í baðstofu yfir barni í ruggu. Hápallar vóru í baðstofunni til beggja enda og þar á rúmin, en autt stafgólf undan baðstofudyrum, frá hvörjum lágu bein göng að kalldyrum út. Búr og eldhús vóru hvort móti öðru í miðjum göngum. Ekki var fólks í bænum nema konan og barnið; hún svæfir það og leggur í rugguna og fer ofan og fram í búrið; ætlar hún að skammta þar fólkinu, tekur í hönd sér fisk og hníf stóran að stykkja fiskinn með. Í þeim svifum sér hún fram um búrdyrnar sem vóru í hálfa gátt að bjarndýr mikið gengur inn göngin og í baðstofu. Hún kastar fiskinum og hleypur með hnífinn í hendinni fram úr búrinu og innar í baðstofuna eftir dýrinu og er það þá komið með framfætur og bóga upp á pallstokkinn og vill ná til ruggunnar. Konan skýzt undir pallinn og leggur hnífnum af alefli í kvið dýrsins og á hol. Þegar dýrið kenndi lagsins seig það niður af pallinum og lagðist á sárið niður á baðstofugólfið og drapst þar.