Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Brigða
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Brigða
Brigða
Á Faxaflóa, tvær vikur fram undan Staðarstað, er sker eitt sem Brigða heitir. Um það er sú saga vestra að einu sinni hafi fest illhveli eða stökkul á því skeri; úldnaði hvalurinn þar og olli drepsótt í sveitinni. Var það þá tekið til bragðs að fólk safnaðist til kirkju, en prestur fór í stól og baðst þar fyrir með söfnuðinum. Kom þá vestanveður svo mikið með stórsjó að illhvelinu skolaði af skerinu, en drepsóttinni létti af.