Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Dreki kemur úr arnareggi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Dreki kemur úr arnareggi

Frá kóngstign össu kunna menn fátt að segja, en aftur nokkuð fleira af ungum hennar og eggjum. Ein sögn er það að ef látið er gull í arnarhreiður er hún hefur nýorpið komi úr öðru egginu lausnarsteinn, en úr hinu flugdreki, og er þessi saga sögð þar um til sannindamerkis:

Maður hét Jón; hann bjó í Lambhaga í Borgarfirði. Hann var ágætur skotmaður; það er sagt að hann hafi gert það til leiknis til að reyna hvort það væri satt að dreki kæmi úr arnareggi að hann lagði gull undir arnarhreiður, annaðhvort í Leirárey eða Bakkahólma. Fleiri voru í vitorði um þetta og vöruðu þeir hann við að gjöra það því illt gæti af því hlotizt. Jón sagðist mundi ábyrgjast allt það tjón sem af því leiddi og ráða óvættina af dögum ef til þess kæmi. Jón vitjaði síðan um hreiðrið við og við, en einu sinni þegar hann kom sá hann dálítinn dreka nýskriðinn úr öðru egginu. Eftir það leið mánaðartími að ekki varð vart við neina hreyfingu á honum. Einn dag þar á eftir sáu menn að dreki þessi flaug úr hreiðrinu og upp í Bakkanes og sat þar stundarkorn; síðan flaug hann upp þaðan, en hremmdi um leið veturgamalt tryppi í nesinu og flaug með það í klónum suður yfir Leirárvoga, suður í Arkarlækjarnes. Við þessi undur urðu menn hræddir og skoruðu nú á Jón að efna nú orð sín og fyrirkoma drekanum. Jóni tókst það og loksins eftir langa mæðu, en það sagði hann síðan að ekkert skot hefði unnið á drekanum fyrr en hann hefði skotið á hann með silfurhnöppum sem hann skar af peysunni sinni.