Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Dysjar við Grundarfjörð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Dysjar við Grundarfjörð

Á Grundarkampi (við botninn á Grundarfirði) er lítið dys er menn ekki vita með vissu hvernig til er orðið, og annað lítið grjótdys hefir verið upp undir Fossunum (= fossi Grundarár þar sem hún steypist af fjallinu ofan í Grundarbotn). Í hið fyrrnefnda dysið er sagt að Oddur læknir Hjaltalín hafi grafið þá er hann bjó í Grundarfirði og hafi hann fundið þar menjar eða örmul af fötum og fáeinum hnöppum. Þrátt fyrir þetta eru menn jafnófróðir um hvernig á dysjum þessum standi. En gömul sögusögn (eða munnmæli) segir oss glöggt frá slíku og er hún á þennan hátt:

Einu sinni þó langt sé síðan bjó kaupmaður í Grundarfirði. Til hans kom ár hvert á fjörðinn útlendur kaupmaður og færði honum um leið margs kyns varning. Hann átti son er var tíu eða tólf ára gamall þegar saga þessi gerðist. Hann og Grundarfjarðarkaupmaður áttu sem nú var sagt skipti saman; féll allt vel með þeim og gerðust þeir góðir vinir. Einhverju sinni talast svo til með þeim að drengur sá er nýskeð var getið yrði eftir hjá Grundarfjarðarkaupmanni árlangt unz faðir hans kæmi aftur. Þegar útlendi kaupmaðurinn er ferðbúinn lætur hann að vanda í haf, og segir ekki að sinni meira af honum. En frá drengnum er það að segja að hann fyrst um sinn unir sér vel hjá Grundarfjarðarkaupmanni og er honum fylgisamur.

Um veturinn einu sinni átti kaupmaður erindi fram að Eyri; langaði þá drenginn til að fara þangað með honum og fekk það líka. Þegar þeir komu þangað fengu þeir þar góðan greiða og þar á meðal flautir. Þessi nýi réttur þótti drengnum næsta góður og neytti hans unz hann stóð á þambi; fekk hann brátt af þessu innantökur og búkhlaup og kom kaupmaður honum með naumindum heim aftur. Drengurinn sem óvanur var flautunum og át þær svona yfir sig hélt að sér hefði þar verið gefið eitur og sagði það hverjum manni; og þegar faðir hans kemur næsta sumar segir hann honum hið sama og þar með að með eitrinu er hann svo nefndi hefði átt að drepa sig. Við fregn þessa verður faðir hans afar reiður og tekur strax drenginn fram á skip til sín. Segist hann skuli launa kaupmanni og Eyrsveitingum eiturbyrlunina næsta ár og siglir síðan burtu. Eyrsveitingar vissu nú að ekki myndi á góðu von. Gerðu þeir því ráð sitt á þann hátt að þeir bjuggu sig út með bareflum og söfnuðu saman og höfðu til taks mikinn fjölda trippa; voru þeir þannig búnir við komu kaupmannsins. Og þegar þeir sáu að hann kom fóru þeir með allmiklu liði upp í Grundarfjörð og ráku trippafjöldann á undan sér fram á Grundarkamp. En sjálfir stóðu þeir á bak við þetta trippalið. En þegar hinn útlendi kaupmaður sér þennan viðbúnað kemur hann strax í land með öllu sínu liði, og var það útbúið með hlöðnum byssum og tekur þegar að skjóta á lið landsmanna. Öll þessi skot lentu í trippunum, en sökuðu engan mann. Áður en hinir útlendu menn gætu aftur hlaðið byssur sínar óðu landsmenn að þeim og börðu á þeim með bareflunum. Drápu þeir þá suma þar á kampinum, en hinir aðrir flýðu upp eftir Grundarbotni. Landsmenn eltu þá þangað, drápu þá sinn í hverjum stað og seinast fáeina þeirra upp undir Fossunum. Þar drógu þeir þá saman og dysjuðu þá, en þá sem fallið höfðu á Grundarkampi dysjuðu þeir á kampinum við Grundará. Þegar þeir sem eftir voru út á skipinu sáu ófarir landa sinna urðu þeir hræddir og héldu sem skjótast á haf út. Varð ekki síðan vart við þá hér við land.