Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Feigðaraðkall

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Feigðaraðkall

Einu sinni sem oftar var biskupinn í Skálholti að vísitera í Hvítársíðu í Borgarfirði. Var hann þegjandalegur mjög um daginn og hugsandi og bað menn sína hraða sér sem mest til að ná tjaldstað, en hann skyldi vera á grundinni hjá Bjarnastöðum við vaðið í Hvítá. Þeir gjörðu svo og tjölduðu, en biskup gekk um gólf á grundinni einn sér. Þegar búið var að tjalda og biskupi var sagt að allt væri í lag komið dæsti hann og sagði: „Stundin er komin, en maðurinn ekki.“ En í sama bili sést hvar maður kemur og ríður ákaflega og stefnir að vaðinu á ánni. Biskup fer með menn sína í veg fyrir manninn og segist vilja tala við hann. En svo var mikill ákafi í manninum að komast út í ána, þó biskup og hans menn segði hana bráðófæra, að hann tók aðeins undir við biskup og bað hann tefja sig ekki því sér lægi á. Biskup skipaði þá mönnum sínum að taka manninn og fara með hann inn í tjaldið. Þeir gjöra það, en þá verður manninum svo illt að enginn hugði honum líf stundu lengur og var eins og hann berðist við öndina og gæti ekki dáið. Biskup lét þá sækja vatn í ána og dreypa á manninn, og á sama augnabragði og vatnið kom inn fyrir varir mannsins þá dó hann. Biskup sagði þá að af hrafnamáli um daginn hefði hann vitað að feigð hefði kallað að manni þessum og hann hefði átt að drukkna í ánni; því hefði hann og getað dáið undireins og vatnið kom í munn honum, en fyrr ekki.