Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Fleira af örninni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fleira af örninni

Ef maður vill glepja sjónir fyrir öðrum skal taka arnarfjöður úr vinstra væng og leggja undir dýnuna sem hinn situr á. Það er og enn sögn að þau börn sem drekki meðan þau eru ung mjólk með fjöðurstaf af arnarfjöður verði ákaflega minnisgóð. Þar sem arnarkló er höfð í smiðjusveifinni og haldið um þegar blásið er, þar á aldrei smiðja að brenna. Það er ráð við því að ekki sé stolið frá manni þeim hlut sem maður vill ekki missa að maður liðar sundur gullspora arnarinnar um miðjan hælinn á henni lifandi og lætur blóðið sem þar af rennur drjúpa í leirker eða glerker. Þar í skal rjóða lausnarstein þann sem heldur allri náttúru sinni, láta hann síðan blóðugan í glerflösku og nýtt messuvín þar saman við. Þetta skal standa óhreyft í sjö vikur, en að þeim liðnum má taka upp flöskuna á hinni sömu stund dags sem hún var byrgð á. Skal þá taka fjöðurstaf, dýfa honum í það sem í flöskunni er og bregða honum á eða undir þann dauðan hlut sem kyrr skal liggja.