Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Fleiri fiskar, góðir og vondir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fleiri fiskar, góðir og vondir

Enn er að minnast nokkurra smáfiska í sjó og í vötnum sem minna sópar að en hinum fyrrtöldu.

Ég nefni þá fyrst hlýrann. Hann er í ætt við steinbítinn og kallaður bróðir hans. Hann hefur sér það til ágætis eins og aðrir fiskar að hann hefur tvær kvarnir og fylgir þeim manni lán mikið sem ber gæfu til að ná þeim. Svo er því varið að hlýrinn hleypir niður úr sér kvörnunum um leið og hann kemur upp úr sjónum. En hver sem þá er svo fimur og kunnáttusamur að hann geti komið höndunum undir hlýrann og náð kvörnunum, honum fylgir þaðan í frá lán og lukka á landi og sjó.

Um ufsann er sú trú, að minnsta kosti sumstaðar, að sá verði aldrei fisklaus sem eigi ufsa í eigu sinni.

Til eru bæði ódrættir í sjó og óætisfiskar í vötnum og tel ég til dæmis af ódráttunum blágómuna. Vestfirðingum þykir hún sú ókind að þeir skera á færið þegar hún kemur í ljósmál heldur en að innbyrða hana.

En þessir eru taldir óætisfiskar í vötnum: hrökkállinn, öfugugginn og loðsilungurinn. Enginn maður er svo djarfur að leggja sér hrökkál til munns enda munu þess fá dæmi að hann hafi veiðzt. Hann er álnarlangur og heldur sig helzt í forarpyttum og stöðuvötnum, en þó einnig í rennandi vatni. Ef einhver skepna, stórgripir eða menn, stíga fæti sínum í það vatn sem hann er í hringar hann sig utan um fótinn og skellir hann sundur eða sker hann inn að beini, og þykjast menn hafa tekið eftir því að hestar hafi komið haltir upp úr vötnum og hafi annaðhvort misst neðan af einum fætinum um mjóalegginn eða verið skornir þar inn í bein allt í kringum fótlegginn; þó vinnur hann ekki á sauðarfætinum því hann er of mjór til þess að hann geti kreppt sig utan um hann. Ekki ber mönnum saman um hvernig á því standi að hann stýfir sundur fætur manna og gripa. Eggert Ólafsson segir að hrökkállinn sé svo eitraður að hann éti sundur fótinn. En Mohr hefur heyrt það sagt hér á landi að hann hafi ugga hvassa sem sagartennur og með þeim skeri hann sundur hold og sinar inn að beini.

Öfugugginn er sagt að sé eins og silungur að öllum skapnaði nema hvað hann er kolsvartur á lit og að uggarnir snúi öfugt á honum og af því dregur hann nafn sitt. Hann er svo baneitraður að hver sem er svo vanvar að smakka á honum hann liggur þegar dauður eftir. Sama er að segja um loðsilunginn sem mér er enn ókunnugra um. En hér set ég nú sögur sína um hvorn þessara óætisfiska.