Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Flyðrumóðir (1)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Flyðrumóðir

Í Skarðdal í Siglufirði hefur lengi búið og býr enn (1864) bóndi sá sem Gísli heitir, aflamaður mikill og heppinn í öllum sjósóknum. Einu sinni sem oftar réri hann á sexrónum báti í heilagfiskislegu. Hitti hann í gott heilagfiski, en bráðum grynnti á færum og sá hann óskaplega lúðu liggja í sjónum og færast upp undir bátinn. Leysti hann þá hraðlega og lagðist annars staðar. Innan skamms fór þar á sömu leið. Beið hann samt þess að lúðan færðist nær. Lá hún þá þversum rétt undir bátnum svo haus og sporður vissu sitt út frá hvörju borði. Var lúðan fremur gráleit og svo fjarskalega stór að breidd hennar var nær því jafnmikil bátslengdinni. Leizt þá Gísla ekki lengur að bíða og hafði sig sem hraðast í land, með því hann þóktist vita að þetta væri flyðrumóðirin og mundi henni vera alvara að vilja granda bátnum.