Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Flyðrumóðir (2)

Úr Wikiheimild

Þá er enn flyðrumóðirin. Hún er og talin voðagestur mikill þó ekki sé mönnum kunnug hryðjuverk hennar. Séra Jón Norðmann segir svo: „Frá því var mér sagt vestra að einhvern tíma ekki alls fyrir löngu var maður við fisk og kom í mikið heilagfiski. Það var á fertugu djúpi. Dró hann þá fyrst eintómar smálúður, svo smástækkuðu sprökurnar og grynnti um leið unz hann dró stórlúður á tíu faðma djúpi. Þorði hann þá ekki að haldast þar lengur við, því hann þóttist vita að þar mundi vera undir flyðrumóðir með fjölskyldu sinni sem hann hefði dregið svo margt af um daginn, en hún mundi valda því að svo mjög grynnti á færinu. Það er líklegt þó ekki viti ég sögur um það að heilagfiskið hafi fengið það nafn sitt af sankti Pétri sem var svo voldugur fiskimaður.“