Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Frá Skutulsey og Hjörtsey

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frá Skutulsey og Hjörtsey

Sagt er að bænahús eða Maríukirkja hafi fyrrum verið í Skutulsey og sést enn votta fyrir tóftinni þar sem sagt er að hún hafi staðið út á miðri eyjunni. Tóftin er sjö álna löng og fimm álna breið. Á vesturhlið eyjarinnar er nefndur Maríusandur, kenndur við kirkjuna. Suður á túninu í Skutulsey er dæld ein eða votlendisflag sem kallað er Klukknaflag. Er svo sagt að í það hafi klukkunum verið fleygt þá er kirkjan var af tekin. Í Skutulsey er og fornmannsleiði, tveir faðmar á lengd og nærri því ferskeytt, með köntuðum undirstöðusteinum sem eru því nær signir niður í grasrótina. Leiði þetta er kallað Háleggsleiði og er það vestan til við vík þá sem kölluð er Háleggsvík. Önnur Háleggsvík er í Hjörtsey gagnvart hinni. Þar er líka kallaður Háleggshamar og er mælt að annar Háleggur liggi í Hjörtsey sem þetta er við kennt.

Lambhústún heitir bær einn í Hjörtsey og hjáleiga þaðan. Hann er lítinn kipp fyrir sunnan eða suðaustan heimabæinn. En framan til við túnið á Lambhústúni er hóll einn aflangur – tilsýndar sem stórt hús væri. Klettur er undir öllum hólnum umhverfis. Hóll sá er nefndur Knörr og er svo mælt að hann hafi verið álfakirkja því oft hafi heyrzt messa sungin í hólnum og jafnvel einnig hringingar. Lítinn spöl fyrir framan Knörr er annar hóll allmikill er nefndur er Línlakahóll. Er mælt að hann hafi verið prestsetrið og fengið nafn af því að þar á hólinn hafi rekkjuvoðirnar – línlökin – oft verið breidd út.

Það er mælt að eitt sinn í fornöld hafi verið venju fremur afar mikill músagangur í Hjörtsey og hafi þeim með kunnáttu öllum verið með einum nautsbógi stefnt í þenna Línlakahól og síðan hefir að sögn aldrei nein mús sézt í Hjörtsey.