Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Galdrafluga og mýfluga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Galdrafluga og mýfluga

Til þeirra skal telja fyrst og fremst galdrafluguna, og nýtur hún mest í því nafns síns og þess annars að Eggert Ólafsson telur það víst að fáfróðir menn hafi ætlað að hún hafi verið höfð til galdra þó nú fari engar sögur það ég veit af henni. Hún er náskyld mýflugunni.

Af mýflugunni segja náttúrufræðingarnir að séu til tvær tegundir. Aðra kalla þeir þeyflugu og er það sú sem kölluð er rekamý í héruðum þeim sem næst liggja mestu mývargssveitunum af því hana rekur þangað undan vindi þegar hvasst er, en hina eða mývarg. Vart mun almenningur gjöra þeirra flugna nokkurn mun og skal því geta hér mývargsins án greinarmunar.

Mýbitið er hvervetna hér á landi talin einhver versta plága sem hugsazt getur bæði fyrir menn og málleysingja, en einkum eru það tvö byggðarlög sem eiga hvað þyngst undir þessu böli að búa, Grafningurinn í Árnessýslu og Mývatnssveit í Þingeyjarsýslu, og næstu sveitir þar í grennd þegar vindur feykir þangað mýinu. Þó er og víða annarstaðar talsvert mýbit helzt þar sem veiðivötn eru eða skógar því eins og silungurinn sækist eftir flugunni á vötnum eins sækir flugan í silungshreistrið sem á vatninu flýtur. Er því oftast samfara góðri veiði mikið mýbit. Á báðum fyrrnefndum stöðum verður svo myrkt í lofti af mývarginum að varla sér til sólar í heiðskíru veðri eða svo virðist sem ský dragi fyrir hana þegar mýbitstorfurnar fljúga upp sem Jónas heitinn Hallgrímsson kvað um Sogið:

„Og svo var margt af mýi
mökk fyrir sólu ber –
að Þórður sortnaði sjálfur
og sópaði framan úr sér.“[1]

Á báðum stöðunum ganga menn og skepnur blóðrisa undan vargi þessum sem fer upp í öll skilningarvit sem opin standa svo ekki verður við Spornað, en blóðið lagar úr á eftir. Þessi meinvættur hefur þótt svo mikill ófögnuður og illur að menn hafa ekki getað ímyndað sér að guð hafi skapað mýfluguna sem gjörir svo mikið mein af sér, heldur hafi hún kviknað í skegginu á kölska og því er mýbitið kallað „skegglýsnar skrattans“.

  1. Ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar, Rvík 1945, 191. bls. (Sogið). Sog heitir vatnsfall það sem rennur úr Þingvallavatni fram í Ölfusá og aðgreinir Grímsnes og Grafning. Ofarlega í því er gígur einn hjá Kaldárhöfða sem bæði Grímsnesingar og Grafningsmenn hafa haft þá trú á að mýbit kæmi upp úr á vorin.