Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Geddan

Úr Wikiheimild

Gedda hefur tvær tegundir: 1) vatnagedda og 2) sjávargedda. Sá er munur á tegund þeirra að vatnageddan er það baneitraðasta kvikindi sem til er á Íslandi, en sjávargeddan er aðeins eitruð á kviðnum. Vatnageddan er logagyllt á lit, flyðrumynduð á stærð við flyðrulok; hún sést helzt í þokum og þykkviðrum á undan ofsaveðrum.

Konstramenn sóktu mjög eftir að veiða vatnagedduna sökum kynngi þeirrar er henni fylgdi, því aldrei var svo rammur draugur að hann gæti upp komizt ef vatnageddan var lögð þar yfir er honum var niður sökkt. Staðarhóls-Páll lét sækja geddur um langar leiðir og beita fyrir þær gulli, því á það veiðast þær. Víða eru heiðavötn kennd við geddur, en veiði þessara kynjaorma er nú fyrir löngu niður lögð. Geddan sem höfð var til töfra var vandhæfisgripur vegna þess hún var svo baneitruð. Varð að vefja hana fyrst innan í sigurkufl af barni þá er búið var að veiða hana á gullhringsagn, en þar utan um var margvafið líknabelg. Þormóður gamli í Gvöndareyjum lét sækja sér eina slíka geddu í Gedduvatn á Bæjardalsheiði. En af því veiðimaður gætti ekki að búa um hana sem áður var sagt þá smó hún gegnum tvö hrossskinn er utan um hana voru látin, í jörð niður.