Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Guð borgar fyrir hrafninn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Guð borgar fyrir hrafninn

Einu sinni fór maður frá Staðarstað út að Búðum, fann á heimleiðinni grásleppu, tók hana upp og lét í poka sinn og reið svo heim eftir. Vinnumenn frá Staðarstað voru í veri og lágu við út í Lágubúð, en voru þá á sjó því vertíð var nýbyrjuð og réru fyrsta vertíðarróður um daginn. Þegar maðurinn fór heimleiðis reið hann hjá sjóbúðunum í Lágubúð og sátu þá tveir hrafnar á Staðarbúðinni. Virtist þá manninum – og segir hann að sér hafi orðið það ósjálfrátt – annar hrafnanna biðja sig um bita. En hann sagðist ekkert hafa því hann mundi ekki eftir grásleppunni. Hrafninn sagði jú, hann hefði það í pokanum sínum. Fór þá maðurinn að leita, fann grásleppuna og gaf honum bita. Síðan spurði maðurinn krumma hvort þeir mundu afla vel í dag, Staðarpiltar. Krummi sagði jú, þeir mundu fá tvær lúður vænar. Fór svo maðurinn heim og gat um þetta við fólkið. En það hló að honum fyrir heimskuna. Um kvöldið fór maður þessi allt að einu með tvo reiðingshesta til að sækja á aflann til vermanna og höfðu Staðarpiltar fengið um daginn tvær lúður mjög stórar.