Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Gullhver og Þjófahver

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einn af hverunum hjá Reykhólum á Reykjanesi heitir Gullhver. En svo er sagt að nafnið sé til komið að heima á Reykhólum sem er býsnakipp frá hvernum hafi einu sinni týnzt gullhringur og hafi hann fundizt aftur í hver þessum; er það því trú manna að samrennsli sé undan bænum neðanjarðar og í hverinn og sé þar í einu af bæjarhúsunum auga upp úr þessum undirgangi. Upp úr þessu auga er sagt að leggi undramikinn yl og í einn stað í bæjarhúsunum á Reykhólum sækja hundar og kettir mjög af því þar sé heitara en annarstaðar.

Annar hver hjá Reykhólum heitir Þjófahver. Sú sögn er um hann að einu sinni hafi þjófur ætlað að sjóða í hvernum sauð sem hann hafði stolið, en að hverinn hafi sólgið hann í sig með sauðnum og öllu saman.