Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Háskjól og Vömb

Úr Wikiheimild

Einu sinni var sakamaður í Mýrdal sem af átti að taka. Var hann þá á sjó er þeir komu sem hann áttu að handtaka og flytja til aftökustaðarins. Var undanförutíminn svo naumur að hann stökk af skipi í öllum skinnklæðunum strax er skipið kenndi grunns í vörinni við Dyrhólaey og upp eftir sveitinni að hellir þeim er Háskjól heitir í vestanverðu Búrfelli í landnorður af Steig í Mýrdal, og óvinir hans á eftir honum allt að hellismunnanum. Hélt hann lengi áfram inn eftir hellinum í niðamyrkri þar til hellirinn varð svo þröngur að hann varð að skríða á fjórum fótum; smáhækkaði svo aftur og birti loks fyrir augum. Kom hann þá fram í hellir þann austur í Vatnsássundum austan megin heiðarinnar er Vömb heitir.

Hefir maðurinn svo frá sagt að hann hafi lengi vaðið í þrengslunum ysjusand mikinn. Voru sjóskór hans fullir af honum. En er hann kom í birtuna voru skór hans fullir af gullsandi fyrir hvað hann keypti sér frelsi.