Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hættir selsins

Úr Wikiheimild

Sú er trú á selnum að ef hann kemur í móti skipi þegar byrjuð er sjóferð skuli snúa aftur, því það sé ills viti, en það sé góðs viti ef hann haldi í sömu átt og skipið eða leggist í kjalfarið. Séra Jón Norðmann segir svo:

„29. maí 1847 fórum við Grímseyingar á stað um kvöld í blæja blíða logni og bezta útliti. Kom þá á firðinum selur á móti okkur. Fóru svo eyjarmenn að tala um að þetta væri ills viti og var af ráðið að halda vel austur á svo við gætum þó náð Flatey ef ekki vildi betur til. Héldum við svo norðaustur, en hlutum að snúa aftur; fengum við þá vondan garð og náðum aftur Þönglabakka í Fjörðum. Sé þetta stöðug regla get ég ekki gjört mér það skiljanlegt öðruvísi en svo að selurinn annaðhvort leiti undan veðri eða til lands þegar von er á vondu veðri.“

Enn er það sögn um selinn að hann sé undur forvitinn, en einkum sé hann nærgöngull við óléttar konur og sjái hann fyrr á þeim en nokkur maður merki þunga með þeim og eins ef hann sér eitthvað rautt; syndir hann þá sí og æ fram og aftur þar sem hann sér annað hvort á landi upp, en fylgir jafnt og þétt því skipi sem hann veit af þungaðri konu í eða sér á rauðan lit. En mest ofboð og hnýsni kemur á hann ef hann sér ólétta konu í rauðu fati eða með rauða svuntu.