Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hamraslaga, Ánhamar og Arahellir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hamraslaga, Ánhamar og Arahellir

Í Hömrum í Hraunhrepp og Akrasókn eru austan, sunnan og útsunnan [við] bæinn röð af háum hömrum er bærinn dregur nafn af. Þó er einn hamarinn hæstur og er hann kallaður Hamraslaga. Austan til í Hamraslögu er gjá ein allmerkileg löguð sem kista, hér um bil 6-7 álna löng og 1½ álna breið, með 10-12 álna standbergi á þrjá vegu. Í útsuðurhorni gjárinnar eru dyr og stendur í þeim stór klettur hér um 4½ álnar hár svo ekki er neinum manni unnt að komast í hana nema færustu mönnum er klifrast upp á steininn sem í dyrunum stendur, og vega sig síðan á höndunum og láta sígast niður í gjána. Botninn í henni er sléttur malarbotn.

Einu sinni í fornöld bjó fjárbóndi einn í Hömrum, en fé hans sókti ákaft í Ánastaðaveitu; það eru engjar frá Ánastöðum. Bóndinn þar kvartaði um þetta tvisvar sinnum og sagði ef ekki væri að gjört, skyldi eigandi fjárins sjálfur ábyrgjast. Skömmu seinna hvarf Hamraféð og fannst hvörgi. Þetta var um vorið í gróandanum, en þá er á leið sumarið kom á gang þessi vísa:

Hamraslaga er herleg borg;
hana' hefur smíðað smiður.
Sauðarbeinin sérlega mörg
sáðst hafa þar niður.

Var þá farið að grennslast þar eftir og fannst þá féð allt í gjánni og var þá orðið að maðkaveitu. Var þá haft fyrir satt að Ánastaðabóndinn hefði með göldrum eða fjölkynngi stefnt fénu í gjána; en líklega hefir hann með mannafla rekið féð að gjánni og kastað því síðan niður í hana. En hvað sem hæft er í sögu þessari þá er samt nú – árið 1862 – mikið af gömlum mosavöxnum sauðarbeinum þar niðri í gjánni.

Neðst í áðurnefndri hamraroðinni hæstu er einn hamarinn nefndur Ánhamar sem sagt er að beri nafn af Án – eða Ána – er byggði Ánastaði. Þar neðan undir hamrinum er dys hans eða haugur – grjóthrúga á landamerkjum milli Hamra og Ánastaða – og er mælt að hann hafi beðið að heygja sig þar er ekki sæist sólaruppkoma né sólarlag á sumardegi og mun það svo vera.

Enn einn Hamrabóndinn í fornöld er mælt að hafi lagt fyrir að heygja sig þar sem sól skini á strax og hún kæmi upp og seinast á sólarlagi. Er haugur hans vestan undir há-Hamraslögu, grjóthrúga sem þar sést enn í dag. Í hvörugt þessara dysja hefir verið grafið svo menn viti til.

Getið er þess líka að ekkja ein í fornöld hafi búið á Hömrum með tveimur sonum sínum; þeir hétu Ari annar, hinn Ingimundur. Ari hafði féð í helli einum sem er í hamrinum er næstur er bænum. Er svo sagt að hann eitthvört sinn í illu veðri hafi verið að moka upp hellinn og hafi þá féð allt þyrpzt inn á hann. En þá er farið var að leita hans fannst hann þar dauður innst í hellinum og allt féð dautt fyrir framan hann. Þegar móðir hans heyrði þetta fór hún að gráta. Þá mælti Ingimundur bróðir Ara: „Far þú ofan í Arahellir og grát þú þar;“ og segir ennfremur: „Nú má éta ket og bíta bein því bróðir minn er dauður í hellinum og allt féð.“ Síðan er hellirinn nefndur Arahellir.

Í byrjun 19. aldar var smali einn í Hömrum er Þorsteinn hét. Einu sinni bar svo til að hann gat ekki komið fé sínu heim, heldur þyrpist það jafnótt aftur á hann hvað eftir annað þangað til að Þorsteini sinnaðist. Gengur hann þá fram fyrir féð og segir: „Hvörr andskotinn er þarna?“ og rann þá féð strax liðugt heim. Var þetta kennt reimleika eftir Ara sem oft átti að hafa orðið vart við lengi fram eftir.