Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hegrinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hegrinn

Sá fugl er heldur sjaldséður hér, en ef sjómenn sjá hann segja þeir að hann boði gott fiskiár. Hegraklær hafa löngum þótt miklir girndargripir af því að önnur þeirra dregur að þeim sem á, fé úr sjó, en önnur úr jörðu. Klær þessar skal maður fá sér með því að skjóta þær undan hegranum á flugi og taka þær í húfuna sína eða hattinn sinn áður en þær snerta jörð því annars missa þær fjárdráttaraflið; þó má ekki skjóta báðar klærnar undan sama hegranum, því það þykir níðingsverk og talið víst að sá verði ólánsmaður sem það gjörir, heldur skal skjóta sína klóna undan hvorum, hægri og vinstri.