Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Holtsá og Steinalækur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Holtsá og Steinalækur

Víða er það á Íslandi að menn hafa trúað og trúa enn í dag að vatnsandar séu í vötnum, tjörnum, ám og lækjum og pyttum. Hér undir Fjöllunum eru þessar helzt: Kaldaklifsá, Svaðbælisá, Steinalækur og Holtsá. Stundum eru og ýmsar orsakir þar til svo sem sagt er um Holtsá og Steinalæk.

Svo er sagt að bóndi sá er Þorvarður hét byggi í Moldnúp. Átti hann í miklu þrasi við prestinn í Holti og þóttist verða undir í viðskiptum þeirra. Kerling gömul og örvasa var hjá Þorvarði í Moldnúp. Þegar kerling dó skar hann magálinn af kerlingu, fór með hann til kirkjunnar og framdi hina hræðiligustu kvöldmáltíðar-vanbrúkun; fór síðan með magálinn inn í gil og sleppti honum í Langalæk – nú Holtsá – með þeim ummælum að hann skyldi ekki af láta fyrr en af færu allar hjáleigur Holts – Holtshverfið. Sá vatnsandi sem í Holtsá er sagður að vera hefir sézt í skötulíki eður sem annað flikki.

Sú er sögn um Steinalæk að þar hefði áður búið fjórir bændur hverra einn hefði átt alla torfuna. Það sést og svo enn á nöfnum engja og túna að bændur hafa verið þrír eður fjórir og er svo að sjá sem hver hafi átt stykki sér; þar til benda nöfnin: Árnatún, Narfar og Ívarsskákar. Sá er átti alla jörðina varð einhverra orsaka vegna að selja hana fyri lítið verð. Lagði hann það á að hún skyldi fara fyri minna og skyldi lækurinn taka bæinn af, þó ekki meðan kirkjan væri enda er það trú að lækurinn grandi ekki bænum meðan hún stendur.

Önnur sögn er það um Steinalæk að förukvenmaður kom og bað að gefa sér að drekka, en varð fyri þeirri mannvonzku sem sjaldgæf er að sá er hún hitti vísaði henni í lækinn. Mælti hún þá um að hann skyldi verða böl bæjarmanna.

Þess hefir oft vart orðið að eitthvað hefir slagað heim á bæinn, annaðhvort undan óveðri eða undan ofsahlaupi og umróti í læknum svo sem í hittifyrravetur (1860). Stundum hefir heyrzt gól, en þó sjaldan; en þar til er sú sögn að útburður hefði verið borinn undir Bæjarbekk. En hvernig sem á þessu hefir staðið þá hefir engum manni orðið meint við sem það hefir fyri borið.

Það sýnist mér vel til fallið að geta þess hér hvers vegna að Steinar hafa fengið nafn sitt. En sú er sögn þar til að á milli Núpakots og Hellnahóls hafi einasta verið tveir steinar og lækurinn í grafskurði. Þessir steinar eru nú kallaðir Kirkjusteinar. Þeir eru tveir sér afar stórir fyri neðan götuna niðraf réttinni fyri utan á Böltunum. Þeir eru í miðaftansstað, en því heita þeir Kirkjusteinar að kirkjan var sett eftir þeim þegar hún var byggð.