Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrafninn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrafninn

Hrafninn eða krummi er kunnugri fugl en frá þurfi að segja og eins það að hann er ránfugl einhver sá mesti, og svo kveður ramt að því að sagt er að hann horfi ekki í að höggva augun úr öðrum nöfnum sínum þegar hann er hungraður og harðindi ganga, og þaðan er þessi orðsháttur upp kominn: „Þá fer að harðna á þegar hver hrafninn kroppar augun úr öðrum.“

Það er alkunnugt að þegar hrafn kemst í dautt hræ á víðavangi étur hann ávallt fyrst úr því augun og því er hann kallaður „augnavargur“ og sagt að sá sem gráðugur er láti eins og argur augnavargur. En því er krummi jafnan svo gráðugur og soltinn að sagt er að ekki sé nema ein í honum görnin og driti hann því jafnskjótt og hann éti. Sagt er það og til dæmis um græðgi hrafnsins að hann éti sjálfur eggin undan sér á vorin þegar hart er og kalt svo hann treysti sér ekki til að sitja á þeim og eins þegar undan honum er steypt, þ. e. þegar hreiðrið er fellt niður með eggjunum og öllu saman. Krummi verpir fyrst allra fugla á vorin, sumir segja níu nóttum fyrir sumar, en aðrir að hann fari þá að „draga í hreiðrið“, þ. e. búa það til. Af því hann er ránfugl verður hann oft á vorin nærgöngull lambám um sauðburðinn því þá er oft lítið um æti, en hann hyggur gott til glóðarinnar að fá sér volgt lambaket eða þá ef miður tekst volgar hildir. Þegar hann verður djarftækur til lambanna sem oft hefur borið við og drepur þau þá er steypt undan honum í hefndaskyni.

Það er sumra manna sögn að hrafnar eigi þing með sér tvisvar á ári, vor og haust, og semji þeir á vorþingum sín á milli hvernig þeir skuli hegða sér á sumrin, en almenn sögn er það að þeir haldi reglulegt hreppamót á haustin. Á haustþingum skipa þeir sér niður á bæi tveir og tveir, karlhrafn og kvenhrafn, og er það kallað að þeir „setji niður“ eins og sveitanefndir skipa hreppsómögum í niðursetu um hreppinn. En fari svo að ekki verði jafnmargir karlhrafnar og kvenhrafnar á sama hrafnaþingi er sagt að hinir hrafnarnir leggist allir á hinn staka að þinglokum, elti hann og drepi hvort sem nokkur bær er til fyrir hann til niðursetu eða ekki. Hrafnar þeir sem niður eru settir á hvern bæ eru ýmist kallaðir „heimahrafnarnir“ eða „bæjahrafnarnir“. Eftir því þykjast menn og hafa tekið að tveir og tveir hrafnar haldi sig jafnan á vetrum að hverjum bæ til að tína úr sorpi því sem út er snarað og ef aðra hrafna beri þar að ýfist heimahrafnarnir við þeim og hætta ekki fyrr en þeir flæma búu-hrafnana burtu. Heimahrafnar er sagt að sé mjög reglusamir; fara þeir á hverju kvöldi þegar dimma tekur burt frá bænum og í bæli sín, en eru uppi aftur þegar birtir og vitja þá um hvort þeim hefur nokkuð fénazt við bæina á næturnar. Það þykir því alls ekki einleikið ef annaðhvort sést eða heyrist til hrafns á náttarþeli, og ætla menn að það sé illir andar eða slæmar fylgjur[1] í hrafnslíki; þeir hrafnar eru kallaðir „nátthrafnar“ og af því sumum rúmlötum mönnum er illa við gesti þá sem seint eru á ferð ber það við að þeir eru kallaðir nátthrafnar. Af því „víða flýgur hrafn yfir grund“ verður hann margs vís og er því sagt „að hann segi tíðindin“. Ef þetta ber að á vortíma meðan jörð er að leysa og hættur eru sem mestar segja menn að „hann sé að segja til þess sem ofan í hafi dottið“ af fénaði þess bæjar þar sem hann er í niðursetu ef hann gargar áfergjulegar en annars. Þetta ætla menn að hann gjöri í þakkarskyni fyrir veturvistina.

  1. Sbr. Fylgjur.