Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrappsnes

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrappsnes

Þegar Guðmundur biskup var á ferðum sínum um Borgarfjörð kom hann að Reykjaholti og dvaldi þar nokkrar nætur. Hann hafði með sér sveina marga. Einn þeirra er nefndur Hrappur eða Hrafn. Hann var hestamaður biskups. Hrappur kom þar að bæ einum í dalnum og spurði eftir hestum biskups því hann var að leita þeirra. Hann fann stúlku eina á þessum bæ. En svo bar við að hrafn sat á bæjarburstinni og krunkaði mjög. Hrappur lézt kunna fuglamál og segir við stúlkuna: „Þessi hrafn segir þig feiga.“ „Ekki mun það vera,“ segir stúlkan, „og er hann að segja þér frá því að á morgun um þetta leyti ætli hann að éta augun úr þér.“ Hrappur lagði engan trúnað á þetta og fór leiðar sinnar. Leitaði hann hestanna þann dag allan, en um kvöldið drukknaði hann í Reykjadalsá. Morguninn eftir fannst hann rekinn á eyri þeirri sem nú heitir Hrapps- eða Hrafnsnes. Vaðið sem þar er á ánni dregur og nafn af honum. Þegar hann fannst höfðu hrafnar höggvið augu úr höfði hans.[1]

  1. Hér um bil sama saga, en alveg sami spádómur og örnefni, er prentað í „Safni til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta“, I, Khöfn 1856, 78. bls. En þar segir að Oddur Gottskálksson hafi spáð þessu af hrafnsgargi fyrir vinnumanni sínum. Þar er nefnd Hrafnseyri það sem hér er kallað Hrappsnes eða Hrafnsnes.