Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hulinhjálmssteinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hulinhjálmssteinn

Hulinhjálmssteinninn dregur nafn af hulinhjálmi eða huliðshjálmi sem sögur ganga af bæði í norrænni og þýzkri goðafræði. Mjög snemma hefur það tíðkazt á Norðurlöndum að neyta hulinhjálms til ýmsra galdrabragða sem gjöra máttu menn og hluti ósýnilega, t. d. til að magna með honum ský er lögðu myrkva eða hulu yfir allt sem falið átti að vera.

Hulinhjálmssteinn er dökklifrauður að lit. Geyma skal hann undir vinstra armi. En ef maður vill neyta hans og gjöra sig ósýnilegan skal maður fela hann í vinstra lófa vafðan í hárlokk eða blaði svo ekki sjái á hann neinstaðar; verður sá hinn sami ósýnilegur á meðan, en sér þó sjálfur allt sem fram fer í kringum sig.

Ýmsum sögnum fer um það hvernig maður skal fá sér hulinhjálmsstein og set ég hér því fyrst almennustu aðferðina sem sagt er að hafi verið til þess höfð:

Maður skal taka glænýtt hrafnsegg úr hreiðri, sjóða það og bera volgt aftur í hreiðrið. Þegar hrafninn kemur aftur að hreiðrinu og hann finnur þau missmíði sem á eru orðin fer hann og útvegar sér þann stein sem gjöri eggin aftur hrá, en sá náttúrusteinn er sagt að sé í ey einni í Rauðahafinu[1] og verður aldrei úr því eggi hulinhjálmssteinn. En geti maður tekið eggið, soðið það og komið því aftur í hreiðrið án þess krummi verði var við liggur hann á því ómakslaust eftir sem áður. En þegar hann getur ekki klakið út egginu grefur hann það niður eða tekur það burtu og skal þá taka það áður. Verður þá svo sem steinn innan í því.

„Þetta dugir til hulinhjálms;“ en aðrir segja að eggið allt verði að svörtum steini.

Ólafur Sveinsson í Purkey sem flestar hégiljur hefur ritað og enn fleiri segja að hrafnseggið skuli taka á föstudaginn langa og sjóða það þannig að hvergi leggi gufu af því. Bezt sé að sjóða það í tveimur samhvolfdum munnlaugum nýjum sem barmarnir falli vel saman á, en strjúka þó vandlega áður barmana með leiri svo hvergi komist gufan út.

Margar fleiri aðferðir eru til að ná hulinhjálmssteini og set ég þær hér sem ég hef heyrt:

1. Maður skal taka hrafnsunga sem kominn er rétt að flugi, hengja hann á snæri sem fast er á spýtu upp yfir hreiðrinu og stinga upp í hann ginkefli svo hann geti ekki étið. Eftir þrjá (aðrir segja tvo) daga skal vitja um ungann og mun þá finnast í gini hans sá steinn „sem þig kann hylja“.

2. Í kjóahreiðri er steinn; „ef þú berð þann stein á þér sést þú ekki.“

3. Í hreiðri músarbróður finnst steinn með ýmsum litum, ef þú ber hann á þér verður þú ósýnilegur.

4. Tak himnuna sem næst innan úr skurminum á arnareggi og ber næst höfði þér í hvirfli, þá sést maður ekki.

5. Ef maður ber á sér arnarfúlegg eða sprengi það í höfuð sér verður maður eins ósýnilegur; þess vegna flytja gamlar arnir fúlegg sín til hafs þrem nóttum eftir að þær hafa orpið, en hinar yngri skilja þau eftir hulin í hreiðrinu af því þær þekkja ekki gagnsemi þeirra.

Hér að auki er þess getið að hulinhjálmssteinar finnist oft við sjó, ár og læki og á víðavangi og er sú varúð við það að maður standi á honum þangað til makinn hans kemur.

Helga, amma séra Jóns Norðmanns, var einu sinni með fleiri börnum að leita að steinum. Fann hún svo einn sem henni leizt vel á og lét hann upp í sig. Sáu þá hin börnin hana ekki og voru að spyrja hvar hún væri; hún sagðist vera hjá þeim og sá þau; en þau sáu hana ekki að heldur fyrr en hún kastaði steininum.[2]

Einhverstaðar var maður á ferð og fann stein (í Svæðiskrók) og lét hann upp í sig. Hundur hans fór þá að ærast og leita að honum af því hann sá hvergi manninn. Svo gekk maðurinn áfram þangað til hann þurfti að gjöra að skó sínum og lagði hjá sér steininn á meðan. En þegar hann var búinn að gera að skónum var steinninn horfinn og úr því sá hundurinn hann.

Sumir halda að hulinhjálmssteinn leiðist út úr Pétursbuddunni sem er í skötunni og einkum í hinni litlu tindaskötu og þó helzt úr þeim skötum sem hafa tvær pípur vaxnar með hryggnum sem aðrar hafa ekki þar. Báðar þessar pípur skal taka úr skötunni eftir góumánuð eða þær fæðast af henni; síðan skal hún þar yfir liggja sem fugl á eggjum í níu vikur; verða þá buddurnar svartar og finnast tómar, reknar af sjó, með gati á öðrum enda þar sem steinninn hefur út farið, en gljáar eru þær innan.[3]

  1. Hamrendabók hefur þar að auki um hann þá hégilju að hver sem láti undir þann stein blöð af laurustré og áhræri (með honum) „þann í fangelsi er haldinn eður við lás læstan, þá fara hlekkir af þeim fanga.“ Sé þeim steini haldið í munni sér gefur hann skilning á fuglamáli eða fuglakvaki. Hér fara sögurnar um lausnarsteininn og hulinhjálmssteininn mjög saman svo eins vel sýnist hér eiga við sigursteinur Færeyinga sem áður er getið [sjá skýr. við Lausnarsteininn].
  2. Jón Norðmann getur þess að amma sín hafi átt mikið af steinum, eins og sumum Íslendingum var títt að fornu fari.
  3. Sbr. Helgasti fiskur í sjó.