Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hvalurinn

Úr Wikiheimild

Olavíus segir svo: „Árið 1775, nóttina milli 23. og 24. júlím., fór ég á báti út úr Veiðileysufirði í þoku og þykkviðri og stóð það þangað til morguninn eftir kl. 8 ½, að sólskin kom og dreifði snögglega þokunni svo að vel sást um alla byggðina nema aðeins í fjarðarmynninu. Þar var að sjá skrokk einn kolsvartan ofan á sjónum sem tók yfir tvo þriðjunga af fjarðarbreiddinni, en hann er nærhæfis hálf vika sjávar á breidd. Skepna þessi líktist mikið stórhveli og hvarf stundum að nokkru í sjó niður, en stundum rétti hún sporðinn upp í loftið og bægslin og stundum hausinn allan. Þó blæjalogn væri urðu þeir sem með mér voru lafhræddir og ætluðu fyrir fullt og fast að þetta væri illhveli og einkum lyngbakurinn sem svo er frá sagt í fornum sögum að sé eins og eyja tilsýndar og þurfi ekki að éta oftar en þriðja hvert ár, en þá hámi hann í sig allt sem að kjafti kemur, fiska og fugla, sædýr og annað þess konar. Við héldum því að landi og gengum upp á hæð nokkra; þaðan sáum við sömu sjón og áður, ekki lengra að en fjórðung mílu frá sjónum, og virtist okkur það vera reglulegur hvalur. Hóf hann stundum nokkuð af skrokknum frá sjónum hér um bil álnarhátt, en lá þó í sjónum að öðru leyti. Sýndist okkur hann nú miklu ljósari álits en áður. Loksins hvarf hann okkur sjónum allt í einu um kl. 9.“