Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Jón tíkargjóla og stökkullinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón tíkargjóla og stökkullinn

Maður hét Jón og var kallaður „tíkargjóla“ og bar það til þess að þegar hásetar hans mögluðu um að róa af því hann væri svo hvass var það viðkvæði Jóns allajafna að þeir skyldu ekki vera að því arna, það væri ekki nema svolítil tíkargjóla; en Jón var sjósóknari hinn mesti og kunni ekki að hræðast. Einu sinni sem oftar reri hann með hásetum sínum til Sviðs á Faxaflóa. En skamma stund höfðu þeir setið áður en stökkullinn kom og ásótti þá svo að þeim gagnaðist ekki að sitja og Jón varð nauðugur viljugur að halda undan í land enda tjáði honum ekki annað fyrir hásetum sínum sem urðu lafhræddir. Daginn eftir var logn og gott Sjóveður; reri Jón og hafði með sér kúlubyssu sem hann átti því hann var bezta skytta. Þegar þeir voru komnir í sátur segir Jón: „Komi nú andskotans stökkullinn ef hann er nokkur til í sjónum.“ Hásetarnir urðu forviða við þetta og sögðu: „Guð fyrirgefi þér Jón að tala sjóvíti í logninu.“ En á sömu stundu sjá þeir hvar stökkullinn kemur og stefnir á þá. Jón grípur þegar byssuna og hleypir af í því stökkullinn létti sér svo hann skelldist á augabragði niður í sjóinn aftur og tók á rás undan til hafs; það merktu þeir á blóðrákinni sem eftir hann varð í sjónum, en sá stökkull ómakaði þá aldrei framar.