Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Kýrnar á þrettándanótt

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Kýrnar á þrettándanótt

Á þrettándanótt tala allar kýr. Á Þingeyrum í Húnavatnssýslu dvaldist fjósmaðurinn þessa nótt eftir þegar fjósverkum var lokið og leyndist í moðbás. Hann beið þar fram undir miðnætti og varð einkis var; kýrnar lágu og vóru að jótra. En um miðnættisskeið stóð sú upp sem næst var dyrum annars vegar í fjósinu og sagði: „Mál er að mæla.“ Þá stóð önnur upp sem næst var og sagði: „Maður er í fjósi.“ Síðan stóð upp hver af annari og töluðu; þriðja: „Hvað mun hann vilja?“ fjórða: „Forvitni sýna;“ fimmta: „Ærum við hann, ærum við hann; “ sjötta: „Tölum þá og tölum þá;“ sjöunda: „Fýkur [aðrir: tekur] í fossa, segir hún Krossa;“ áttunda: „Ég skal fylla mína hít, segir hún Hvít“ níunda: „Ég stend á stálma, segir hún Hjálma;“ tíunda: „Ég skal halda, segir hún Skjalda;“ ellefta: „Ég ét sem ég þoli, segir hann boli.“ Þá sleit hin fyrsta sig upp og svo hver af annari. En fjósmaðurinn hljóp í rangala sem lá úr fjósinu og í fjósheyið og út um gat á heyinu og komst svo í bæinn. Um morguninn sagði hann tíðindin. En þegar menn komu í fjósið voru allar kýrnar lausar.

Orð sjöundu kýrinnar og þaðan út til bola eða hins ellefta sýnast vera tekin úr þulu eða þulubroti sem menn kunna í Borgarfirði og þannig hljóðar:

„Hvar á að tjalda? segir hún Skjalda.
Suður við ána, segir hún Grána.
Suður við fossa, segir hún Krossa.
Ég skal fjósið finna, segir hún Kinna.
Ég skal éta í mína hít, segir hún Hvít.
Ég skal éta sem ég þoli, segir hann boli.
Ég skal éta sjálfur, segir hann litli kálfur.
Þar sefur bolabarn á bássteini
með moð fyrir múla,
og enginn það svæfir.“