Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Keldusvín (2)

Úr Wikiheimild

Mér er það mein að ég hef svo lítið um það heyrt þó Eggert Ólafsson kannist við nógar sögur um það. Hann hefur orðið var við þá sögn að keldusvínið ætti að vera hálft ormur og gæti því smogið í jörð niður hversu harður sem jarðvegurinn væri því flogið getur það ekki. En ég hef heyrt að það væri af verri toga spunnið og hafa menn ráðið það af því að þegar menn hafa séð það ofanjarðar hefur það óðara horfið sjónum, og ætla menn það sé óhreinn andi sem fari niður í gegnum heila jörðina hvar sem standi. Galdratrú hefur og verið mikil á því, og úr því var keldusvínsfjöðrin tekin sem fjölkynngismenn rituðu römmustu galdrastafi með.

Ein sögn um keldusvínið er þetta: Sá sem nær því á að sofa einn í skemmu eða úthýsi og hafa keldusvínið bundið við höfðalag sitt. Um nóttina rekur það upp þrjá skræki, einn öðrum meiri, og drepst við hinn seinasta. Fáir þola hinn fyrsta, færri hinn annan og því nær engir hinn þriðja. En þeir sem hann þola verða lánsmenn mestu og auðmenn. En ef menn annaðhvort flýja burt eða drepa fuglinn verða þeir ólánsmenn eða skammlífir.