Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Lausnarsteinninn

Úr Wikiheimild

Fleiri en einni sögu fer um það hvar sá steinn fæst því áður er þess getið að hann sé í vatninu í Drápuhlíðarfjalli, en aðrar sagnir segja að hann vaxi í sjónum og reki því á ýmsum stöðum á land.

Aðferðin til að ná honum er þessi: Maður skal fara í arnarhreiður Vítusmessunótt (þ. e. 15. júní) og múlbinda unga hennar meðan þeir eru ófleygir í hreiðrinu. Þegar örnin kemur heim og finnur þá svo stadda leitar hún allra bragða til að losa af þeim múlinn og dregur alls konar náttúrusteina í hreiðrið sem hún hyggur að megi létta þessu af ungunum. Loksins sækir hún lausnarsteininn; margir segja hún komi með þrjá steina seinast með ýmsum litum og beri hún hvern eftir annan að nefi unganna og leysi lausnarsteinninn skjótt múl þeirra. Ef þá er ekki maðurinn viðstaddur að taka steininn fer assa með hann á fertugt djúp og sekkur honum þar niður svo enginn skuli hafa hans not þegar ungarnir eru lausir orðnir.[1]

Steinn þessi er til ýmsra hluta nytsamlegur, en einkum er það talinn beztur kostur hans að hann leysi konu sem á gólfi liggur vel og fljótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort leggja hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, aðrir segja, volgt franskvín hvítt að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í. Stein þenna skal geyma í hveiti ef hann á ekki að missa náttúru sína, og vefja hann í óbornu hvítu lérefti eða líknabelg.

Sumir hafa ætlað að steinar þessir væru aðrir hvatir en hinir blauðir og ungi hinir blauðu aftur öðrum út af sér. Þessi sama hjátrú um fjölgunarmagn steina þessara er sagt að hafi verið, að minnsta kosti í fornöld, í Noregi og á Færeyjum, og heitir hann þar „vettenyre“ (viðarnýra?). Færeyska nafnið lætur og nærri því sem menn eru nú orðnir almennt sannfærðir um á Íslandi og Eggert Ólafsson hefur tekið fram að það sem nefnt hefur verið lausnarsteinn er alls ekki steinn, heldur ávöxtur eða hnot af tré (mimosa scandens) sem rekur hér og hvar upp með öðrum rekavið á Vesturlandi.

  1. Í Hamrendabók segir að örninni verði svo mikið um þegar múllinn losni af ungunum að hún spyrni lausnarsteininum af feginleik ofan úr hreiðrinu.