Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Loðinshöfði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Loðinshöfði

Einu sinni var kall einn á Jökuldal. Hann var forn í skapi og fjölkunnugur og gamall mjög er þessi saga gjörðist. Vildi hann þá gjöra einhvurn þann hlut sem bæði væri til nytsemdar og héldi á loft nafni sínu, tekur því það til bragðs að hann fer upp að efsta bænum á dalnum sem Brú heitir (því þá var Hrafnkelsdalur í eyði) og smalaði öllum músum, sem til voru, út eftir dalnum þar til hann kom á höfða einn sem er miðja vega milli Gilsár og Arnórsstaða; þar nam hann staðar með músareksturinn; en ekki veit ég hvurs vegna það hefur verið. – Gekk hann þar frá þeim öllum í einni holu og sagði að ekki mundi bera á músum á þessu stykki er hann hafði hreinsað meðan nokkur jaxli úr sér væri ófúinn. Litlu síðar dó kallinn. En höfðinn er enn í dag kallaður Loðinshöfði, því þar þótti loðið þegar hann var kominn þangað með allan músaflokkinn. – Endar svo þessa sögu.