Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Loðufsi, öfuguggi og hrökkáll
Loðufsi, öfuguggi og hrökkáll
Loðufsi eða öfuguggi var sagt færi aftur á bak, á stærð við silung, svo banvænn að þeir bráðdeyi sem eti hann og hafi vísan þar af orðið:
- Liggur lífs andvana
- lýður allur á Kaldrana —
því á Kaldaðarnesi hafi veiðzt mikið af honum og fundizt fullir diskar af honum eins og það væri soðinn silungur, en fólkið allt dautt; hafi þá sézt að uggar og hreistur hafi allt legið fram sem vant er að liggi aftur á silungi.
Á öðrum stað var líka talað að óvenjulega mikil silungsveiði hefði komið heim eitt kvöld og var silungurinn látinn á eldhúsgólf. Morguninn eftir þegar átti að slægja silunginn var einn lifandi að sprikla ofan á hinum og átti að vera búinn að eitra þá alla.
Líka var sú saga til að loðufsi hefði veiðzt með silungi sem bústýran hafði látið í bol og soðið með öðrum silungi og ætlað að gefa hann heimilismanni sínum sem henni var illa við, en þegar hún hafi farið að næra sig af soðningunni hafi hún hnigið dauð niður.
Líka var saga um eggála eða hrökkála sem allt klipptu sundur er þeir snertu nema beran mannsfót.