Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Loddi og valvan
Loddi og valvan
Lénsjörð prestsins í Reynis- og Höfðabrekkusóknum heitir Heiði eins og kunnugt er. Þar rétt við túnið eru hellrar tveir sem almennt eru kallaðir einu nafni Loddi og tekur nafn af vætt nokkrum eður blendingsþussa er þar skal hafa búið í fornöld og Loddi er nefndur. Hann hélt til í öðrum hellinum sjálfur, en hafði hestinn í hinum og í skúta uppi í berginu hafði hann hund sinn er Kolur hét. Engar sögur eru af hönum sagðar og svo lítur út sem hann hafi þá lifað einlífi. En á efri árum er sagt hann hafi flutt byggð sína að Vík fram við sjóinn; þar átti hann konu sem ekki er þekkt með öðru nafni en Valva, hvert sem hún hefur verið það bæði að raun og nafni. Hér átti hann son er Grákollur hét og dóttir er Grákolla hét. Neðan við túnið í Syðrivík, rétt við götuna þar sem farið er yfir Víkurá, er Grákolluleiði upp við brekkuna og líka heitir flöturinn Grákolluflötur. Leiði þetta er lágt og lítið breiðara en leiði eru almennast, en það eru nálægt tveir faðmar á lengd.
Í bæjargilinu í Norðurvík er stór hvammur er heitir Loddastaðir, og fyrir utan annað grjót eru tvö stór björg þar niður við ána, og er sagt að undir stærra bjarginu liggi Loddi, en undir hinu minna á sonur hans að liggja. Í sjálfum barminum á hinu fyrrnefnda bæjargili er dys mikil, sjónarleg mannaverk, í leiðislögun, er heitir Völvuleiði; það er nærfellt fjögra faðma langt og tæplega tveggja faðma breitt og þetta skal vera leiði konunnar. Þó leiði þetta sé í túninu í Norðurvík hefir ekki þókt eiga að slá það.
Sagt er að þegar Lýður Guðmundsson[1] sýslumaður bjó í Syðrivík og hélt þar að auk hálfa Norðurvíkina þá hafi hann látið fara að grafa í þann endann á leiði þessu er að gilinu veit og hafi þá sýnzt öll ódæmi og meðal annars hafi bæirnir sýnzt í loga. Skipaði hann þá strax að hætta. – Hvört sem hann hefur gjört það eða ekki, þá er auðséð að einhvör hefur þar byrjað að grafa, en sá gröftur er nú fyrir löngu grasi vaxinn.
- ↑ Lýður Guðmundsson (1728-1812) bjó í Vík í Mýrdal (fyrst Norðurvík, síðar Suðurvík) 1756-1809.