Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Mörvambarrif
Mörvambarrif
Kona bjó einu sinni á Dagverðarnesi í Skoradal. Hún átti son uppkominn sem var fyrir framan hjá henni. Hann hafði ofan af fyrir þeim með veiðum úr vatninu. Einu sinni fór hann til veiða þegar ís var kominn á vatnið, en ísinn var ótraustur og fórst pilturinn ofan um hann í vök. Þegar móðir hans varð þess vísari fyllti hún kindarvömb með mör, fór með hana út á vatn og hleypti henni niður í sömu vökina sem sonur hennar hafði farizt í, með þeim ummælum að tveir þriðjungar alls þess silungs sem í vatninu væri skyldi leggjast að mörvömbinni og ef fleiri en einn fyndi þetta silungsmið skyldi Skoradalsvatn verða hið mannhættasta vatn. Nú er sagt að þar hafi verið undir rif eða grynning í vatninu sem kerling hleypti niður mörvömbinni og er það síðan kallað Mörvambarrif. Við þetta er sagt að silungsveiði hafi minnkað um tvo þriðjunga í vatninu, enda veit enginn maður hvar Mörvambarrif er, en þó er sagt að karl einn í hjáleigu hjá Dagverðarnesi hafi lifað eingöngu af silungsveiði úr vatninu og ætla menn að hann hafi einn hitt Mörvambarrif. Engir mannskaðar hafa heldur orðið á Skoradalsvatni.