Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Músarrindill eða músarbróðir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Músarrindill eða músarbróðir

Eins og Eggert Ólafsson segir er þessi fugl nefndur svo af því að hann líkist músinni að mörgum háttum, sést sjaldan á daginn, heldur sig í dimmum holum í jörðunni og er þjófgefinn mjög. Einkum hvinnskast hann í ket þar sem það hangir í rótinni. Af þessu öllu hefur komið sú ótrú á honum að hann væri illur andi og því hafa sumir tekið það til bragðs að setja krossspýtur í eldhússtrompana í því skyni að hann dirfðist ekki að koma nærri krossinum heldur en annað óhreint til að stelast í ketið. Um birtinguna og í rökkrinu er hann helzt ofanjarðar og syngur lágt „tirrírí“. Þenna eiginlegleika hefur hann fram yfir músina, systur sína. Ýms hjátrú hefur verið höfð hér að auki á fugli þessum. Er það eitt að ef hjarta úr músarrindli væri látið í hnífsskaft yrði sá skurður ólæknandi sem maður skæri sig með þeim hníf. Með því má vita hugsanir annars ef maður tekur hjarta músarbróður og hengir í þurrt veður til þess hart er orðið, bindur það síðan í klæði og ber í hendi sér meðan maður talar við manninn. Þá verður maður jafnskyggn á nótt sem degi ef maður þvær sér úr heitu blóði músabróður.[1] Til að stinga svefnþorn skal taka höfuð músarbróður og hengja það upp yfir höfði á sofandi manni. Vaknar hann þá ekki fyrr en það er tekið burtu.[2]

  1. Hamraendabók segir að maður skuli þvo sig framan í og bezt í kringum augun úr blóði úr flæðarmús.
  2. Þannig Snæbjörn [Egilsson á Klyppsstað]. En Hamraendabók segir svo frá svefnþorni: „Tak hundshjarta og lát í holuna á því smásalt og lát liggja með þrjár nætur so blóðið út drífist; herð síðan í vindi og heng upp yfir mann.“